Guðbjörn fer í prófkjörsslaginn

Guðbjörn Guðbjörnsson.
Guðbjörn Guðbjörnsson.

Guðbjörn Guðbjörnsson hefur ákveðið að bjóða sig fram í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, sem fram fer 14. mars næstkomandi.

Guðbjörn er fæddur 3. júní 1962 og því 46 ára gamall.

Árið 2008 lauk hann meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu og er því stjórnsýslufræðingur að mennt. Þá lauk hann burtfararprófi í óperusöng árið 1986. Hann stundaði framhaldsnám í Austur-Berlín og lauk svo námi frá „Óperustúdíóinu“ í Zürich í Sviss árið 1989. Þessu til viðbótar lauk hann prófi í þýsku árið 2006 og prófi frá Tollskóla ríkisins árið 2000.

Guðbjörn varar við því í bréfi um framboð sitt að horfið verði aftur til „fjötra félagshyggjunnar“ í þeim aðgerðum sem gripið verði til eftir fjármálahrunið.

„Á námsárum mínum hjálpaði ég til við búskap hjá foreldrum mínum, var í byggingarvinnu, stundaði sjómennsku, vann í banka, gerðist lögreglumaður auk fararstjórnar á Ítalíu,“ skrifar Guðbjörn.

„Eftir nám mitt í óperusöng vann ég sem óperusöngvari í Þýskalandi um 8 ára skeið. Eftir að ég flutti heim árið 1998 vann ég á ferðaskrifstofu og hjá tollstjóra. Í dag er ég yfirtollvörður og stýri þróunardeild tollstjóraembættisins auk þess sem ég kenni óperusöng. Þessu til viðbótar er ég formaður Tollvarðafélags Íslands og sit í stjórn BSRB. Ég hef átt sæti í stjórnum Sjálfstæðisfélaga, fulltrúaráðum og kjördæmisráði og kosningastjórnum. Ég er einstæður faðir og á þrjár dætur á unglingsaldri, sem búa á Selfossi og stunda þar nám.

Ég býð krafta mína fram við endurreisn íslensks samfélags. Í þeirri vinnu er mikilvægt að hagsmunir heimila og fyrirtækja verði tryggðir, sem að mínu mati eru tengdir órjúfanlegum böndum. Tryggja verður að Íslendingar taki ekki á sig meiri skuldbindingar en svo að hér verði áfram tryggð sambærileg lífsgæði og afkoma og gerist í nágrannaríkjunum. Annars er hætta á að tugir þúsunda landsmanna yfirgefi landið. Verði viðunandi lausn fundin fyrir sjávarútveg og íslenskan landbúnað getum við ekki útilokað aðild Íslands að ESB, sem hluta lausnar á aðsteðjandi vanda.

Þegar til framtíðar er litið er uppbygging fjármálakerfisins mikilvægust. Án öflugs bankakerfis mun atvinnulífið ekki verða í stakk búið til að auka útflutningstekjurnar og til að tryggja okkur þá þjónustu sem við þörfnumst. Marka verður framtíðarstefnu í peningamálum og hvaða lögeyri við Íslendingar kjósum að nota.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ítrekað sýnt að hann getur tekið við erfiðri stöðu og snúið henni okkur Íslendingum í vil. Nú sem aldrei fyrr er þörf á styrkri og öruggri hönd við stjórn lands og til þess erum við sjálfstæðismenn best allra flokka fallnir. Besta og fljótlegasta leiðin úr ógöngunum er að fylgja sjálfstæðisstefnunni. Einungis með samstöðu allra stétta landsins náum við að vinna okkur út úr erfiðleikunum. Nú verða atvinnurekendur og launþegar að snú bökum saman en ekki berast á banaspjótum. Ég á bágt með að trúa að Íslendingar kjósi við þessar aðstæður að ganga ótakmarkaðri skipulagshyggju og ríkisforsjá aftur á hönd, að þeir vilji hverfa frá frjálsu efnahagskerfi í fjötra félagshyggjunnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert