Afla upplýsinga um stöðuna

Íslenskir embættismenn á fundi með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í fjármálaráðuneytinu í …
Íslenskir embættismenn á fundi með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í fjármálaráðuneytinu í dag. mbl.is/Kristinn

„Fyrst og fremst hafa starfsmenn [Alþjóðagjaldeyris]sjóðsins verið að safna upplýsingum til að greina stöðu efnahagsmála hér á landi,“ segir Indriði H. Þorláksson, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu. Starfsmenn sjóðsins verða hér á landi til 10. mars til að kynna sér stöðu mál. Þeir hafa setið fundi með sérfræðingum í dag.

Heimsókn starfsmanna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF), undir forystu hagfræðingsins Mark Flanagan, stendur yfir til 10. mars. Að henni lokinni verður unnin skýrsla um stöðu mála hér, og afstaða tekin til þess hvernig framfylgd efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og IMF gengur.

Indriði segir IMF fyrst og fremst hafa verið í því að afla upplýsinga. Á fundi í fjármálaráðuneytinu í morgun var meðal annars rætt um ríkisfjármál, atvinnumál og gjaldeyrismál. „Það er margt sem þarf að fara yfir. Sérfræðingar sjóðsins hafa setið marga stutta fundi í dag þar sem rætt er um afmörkuð efni tengd íslenskum efnahag. En það er ótímabært að ræða um einhverjar niðurstöður. Þær liggja ekki fyrir,“ segir Indriði. Aðspurður hvort rætt hafi verið um hvort tilefni væri til að lækka stýrivexti, sem nú eru 18 prósent, sagði Indriði: „Það þarf að fara vandalega yfir stöðu mála áður en ákvarðanir eru teknar um að lækka vexti, því það getur verið mjög skaðlegt ef lækkunarferlið er hafið of snemma.“

Starfsmenn IMF munu funda með sérfræðingum ráðuneyta, seðlabankans, hagsmunasamtaka og banka áður en þeir halda af landi brott.

Björn Rúnar Guðmundsson, skrifstofustjóri efnahags- og alþjóðadeildar í forsætisráðuneytinu, segir í samtali við blaðamann Reuters í dag að hann búist ekki við því að efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda og IMF verði breytt að lokinni heimsókn IMF hingað til lands. Haldið verði áfram að vinna eftir henni eins og hún er lögð upp nú.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert