Joly: Leita þarf til erlendra sérfræðinga

Eva Joly
Eva Joly

Fyrrum rannsóknardómarinn Eva Joly segir að nauðsynlegt sé að þeir sem komi að rannsókninni á því hvað olli bankahruninu séu sérþjálfaðir. Ekki nægi að Íslendingar komi að rannsókninni heldur verði að leita til erlendra sérfræðinga sem hafi reynslu af rannsóknum sem þessu. Joly var gestur Egils Helgasonar í Silfri Egils í dag.

Hún segir að taka verði  alvarlega á hlutunum og kanna þurfi hvort auðmennirnir séu með peninga falda í skattaskjólum og leynireikninginum. Meðal skattaskjóla sem Joly nefndi í viðtalinu eru Kýpur en einhverjir íslenskir auðmenn eiga félög skráð þar. Joly segir ekki nóg að yfirheyra meinta glæpamenn heldur þurfi að beita húsleitarheimildum. Því menn eigi auðvelt með að segja nei í yfirheyrslum. Skoða þurfi ársreikninga ofl. ofan í kjölinn til þess að finna út hvort brot hafi verið framin. Hún telur að ekki dugi minna en 20-30 sérfræðinga til þess að koma að rannsókninni og að ekki sé orðið of seint að rannsaka málið þrátt fyrir að sex mánuðir séu liðnir frá hruninu.

Hún segir mikilvægt að fjölmiðlar búi við frelsi og segir að það verði að gæta þess að upplýsa þjóðina um rannsóknina. Fólk verði að fá upplýsingar.  Hún segir það áfall að þrátt fyrir að íslensku bankarnir hafi vitað hver staðan var þá hafi þeir hvatt fólk til þess að leggja fjármuni sína inn í bankana. Joly segir að það megi ekki láta þá, ef þeir eru sekir, komast upp með glæpi sína. 

Joly segist vera reiðubúin til þess að aðstoða Íslendinga við rannsóknina. Hún geti ekki sjálf komið að rannsókninni í fullu starfi en hún geti bent á hæfa og þjálfaða rannsakendur auk þess að veita sjálf ráðgjöf.  

 Á vef Egils Helgasonar kemur fram að Eva Joly er einn þekktasti sérfræðingur í efnahagsbrotum í heiminum og er dáð fyrir framgöngu sína í hinu fræga Elf-hneyksli í Frakklandi.

Eva Joly er fædd í Noregi 1943 (Eva Gro Farseth) en fluttist 18 ára gömul til Parísar þar sem hún giftist syni fjölskyldunnar sem hún var ráðin til sem au pair. Eva lærði lögfræði í kvöldskóla og sérhæfði sig í fjármálalögfræði.

Frá árinu 1994 gegndi Eva Joly starfi yfirrannsóknardómara í París, Juge d’Instruction en þetta embætti nýtur sérstakrar verndar samkvæmt frönskum lögum. Juge d’Instruction í Frakklandi hefur ótakmarkað vald til athafna í rannsóknarmálum og nýtur fullkomins sjálfstæðis, þannig að jafnvel forseti lýðveldisins hefur ekki vald til þess að reka slíkan dómara úr embætti. Eina ráð valdhafanna gagnvart dómara sem menn vilja „losna við” er að fá viðkomandi enn æðra embætti – freisting sem Joly stóðst.

Sem rannsóknardómari var Eva lykilmaður í að rekja eitt stærsta spillingarmál sem upp hefur komið í Frakklandi, þar sem olíufélagið Elf Aquitaine var grunað um misferli. Þetta mál, sem breska blaðið Guardian sagði vera umfangsmestu spillingarransókn í Evrópu eftir stríð, leiddi til dóma yfir fjölda háttsettra embættis- og stjórnmálamanna. Þræðir þessa máls lágu víða, m.a. til Þýskalands þar sem nafn Helmut Kohl tengdist vafasömum viðskiptum og meintum mútugreiðslum.  Áður en yfir lauk, höfðu 30 manns hlotið dóm fyrir að hafa með glæpsamlegum hætti komið undan um 450 milljón evrum.

Árið 2005 var Eva Joly ráðinn í nýtt embætti innan NORAD (Norska þróunarsamvinnustofnunin), til þess að vinna gengn spillingu í þróunarstarfi Norðmanna, þar sem hún starfar í dag,  en þá hafði hún verið sérfræðingur norska dómsmálaráðuneytisins í baráttunni gegn peningaþvætti og spillingu frá árinu 2002.

Bók Joly, Justice Under Siege, sem fjallar um rannsóknina á Elf olíufélaginu kom út á ensku árið 2006 hjá Citizen Press í London. Citizen Press, sem rekið er af Sigurði Gísla Pálmasyni og Birni Jónassyni bókaútgefanda, hefur látið prenta upplag af bókinni í tilefni af komu Joly til Íslands og verður hún fáanleg í öllum bókabúðum.

Franski kvikmyndaleikstjórinn Claude Chabrol gerði kvikmynd (2006) eftir bók Joly. Í kvikmyndinni, L’Ivresse du pouvior (Comedy of Power) er  Isabella Huppert í hlutverki Joly. Myndin er á skrá hjá Aðalvídeóleigunni á Klapparstíg.

Fyrir nokkrum vikum kom út bókin „Recovering Stolen Assets” með formála eftir Joly en höfundur bókarinnar er Mark Pieth, prófessor við háskólann í Basel í Sviss, að því er segir á vef Egils Helgasonar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert