Endurskoða sjálfkrafa skráningu í trúfélög

Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra ætlar að láta endurskoða ákvæði laga um að börn séu sjálfkrafa skráð í trúfélög. Jafnréttisstofa hefur haldið því fram að ekki séu sjáanlegir neinir hagsmunir af því fyrir nýfætt barn eða foreldra að það sé sjálfkrafa skráð í trúfélag við fæðingu.

Jafnréttisstofa hefur einnig lýst þeirri skoðun að núgildandi lagaákvæði um sjálfkrafa skráningu í trúfélag móður ef foreldri hafa ekki sameiginlega forsjá, standist tæpast jafnréttislög.

Dómsmálaráðherra svaraði fyrirspurn Árna Þórs Sigurðssonar Vinstri grænum um þessi mál á Alþingi í dag  Hann spurði ráðherra hvort ekki væri ástæða til að breyta því fyrirkomulagi að forsjáraðilar taki sameiginlega ákvörðun um skráningu barns í trúfélag þegar og ef þeir kjósa svo, í samræmi við álit lögfræðings Jafnréttisstofu. Árni Þór benti einnig á að Jafnréttisstofa telur að ekki megi sjá neina hagsmuni af því fyri rnýfætt barn eða aðra að það sé sjálfkrafa skráð í trúfélag við fæðingu, hvort sem það fylgir skráningu móður eða föður.

„Þótt jafnréttissjónarmið séu afar mikilvæg, þá hljóta hagsmunir barnsins ætíð að vera í fyrirrúmi. Hvort það séu hagsmunir barns að vera til dæmis ekki skráð í trúfélag, þótt móðir eða faðir séu það, tel ég að verði að skoða nánar,“sagði dómsmálaráðherra. Hún ítrekaði í ræðu sinni að skoða þyrfti hvaða hagsmuni nýfætt barn eða aðrir hefðu af því að það sé sjálfkrafa skráð í trúfélag við fæðingu. Þetta þurfi að skoða í víðu samhengi og út frá fleiri sjónarmiðum en sjónarmiðum jafnréttis, s.s. siðferðislegum- og uppeldislegum sjónarmiðum.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert