Umhverfisvottun ekki trúverðug

Hið nýja merki sem vottar um sjálfbæra nýtingu sjávarfangs við …
Hið nýja merki sem vottar um sjálfbæra nýtingu sjávarfangs við Íslandsstrendur. „Ísland - ábyrgar útgerðir," stendur á merkinu.

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir trúverðugleika hins nýja umhverfisvottunarmerkis fyrir íslenskar sjávarafurðir vera rýran.

„Afleiðing þess að Einar K. Guðfinnsson jók kvótann fyrir þorskveiðar um 30 þúsund tonn á þessu fiskveiðiári og önnur 30 þúsund næsta er sú að aflamarksreglan, sem hefur verið við lýði hér á landi, er horfin. Nú veit engin lengur hver hún er. Vissulega hafði þeirri reglu verið breytt nokkrum sinnum að kröfu LÍÚ en með endurskilgreiningum. Einar hafði ekki fyrir því að bera neinu slíku við heldur var kvótinn bara aukinn. Þar með er trúverðugleiki íslenskrar fiskveiðistefnu, sem hið íslenska merki á að byggja á, orðinn ansi rýr,“ segir Árni.

Á vef Landssambands íslenskra útvegsmanna var fyrr í dag greint frá því að erlendir fjölmiðlar hafi sýnt íslenska merkinu áhuga og fjallað um það. Árni segist hins vegar ekki hafa séð í téðri frétt hvaða fjölmiðlar hafi verið svona ánægðir með hið nýja íslenska merki. „Væntanlega kemur það í ljós síðar,“ segir Árni.

Þá segir Árni að svar Steingríms J. Sigfússonar sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Marðar Árnasonar þingmanns hafi verið heldur aumt. Mörður spurði Steingrím um það á þingi í síðustu viku, hvaða áhrif ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar um aukningu þorskkvótans hefði á skilyrði umhverfisvottunarinnar. „Líklega hefur hann ekki náð að móta eigin stefnu og sjálfsagt vill ekki svona skömmu fyrir kosningar,“ segir Árni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert