Mannanafnanefnd klofnaði

Íþróttafélagið Skallagrímur starfar í Borgarnesi
Íþróttafélagið Skallagrímur starfar í Borgarnesi mbl.is/Árni Sæberg

Fáheyrt er að mannanafnanefnd klofni við afgreiðslu umsókna. Það gerðist engu að síður þegar nefndin tók afstöðu til eiginnafnsins Skallagrímur. Meirihluti nefndarinnar hafnaði nafninu á þeim grundvelli að Skallagrímur teldist ekki vera myndað í samræmi við almennar nafnamyndunarreglur íslensks máls og því brjóta í bága við íslenskt málkerfi.

„Fyrri liður nafnsins Skallagrímur er viðurnefni, þ.e. viðbót við eiginlegt nafn sem er Grímur. [...] Fjölmörg dæmi eru um viðurnefni í íslenskum bókmenntum, s.s. Brennu-Njáll, Göngu-Hrólfur, Axlar-Björn og Grasa-Gudda en viðurnefni geta verið viðkvæm og niðurlægjandi, ekki síst ef þau eru kennd við útlitseinkenni eins og í þessu tilviki. Nafnið Skallagrímur hefur ennfremur verið notað sem viðurnefni á sköllóttum mönnum. Ekki er hefð fyrir því að greinileg viðurnefni séu hluti af eiginlegum eiginnöfnum og telst Skallagrímur því ekki vera myndað í samræmi við almennar nafnamyndunarreglur íslensks máls og telst því brjóta í bág við íslenskt málkerfi,“ segir m.a. í áliti meirihluta mannanafnanefndar.

Í sératkvæði sínu bendir Baldur Sigurðsson, dósent í íslensku á menntavísindasviði Háskóla Íslands, á að nafnið Skallagrímur sé að tvennu leyti ekki í samræmi við íslenska nafnahefð. Annars vegar vegna þess að það sé viðurnefni eða auknefni, en hins vegar því að mjög fátítt sé að fyrri liður nafns sé í eignarfalli (sbr. skalla-) en þó séu slík nöfn til, t.d. séu nöfnin Hagalín, Gilslaug og Maríuerla á mannanafnaskrá.

„Ég tel samt sem áður unnt að fallast á nafnið vegna sérstöðu þess í sögu Íslands og bókmenntum,“ skrifar Baldur og bendir á að nöfn Skallagríms og föður hans, Kveldúlfs, séu hefðbundin nöfn á þekktum körlum í fornbókmenntum Íslendinga og nú þegar svo rótgróin að fáir leiði hugann að því að um auknefni eða viðurefni sé að ræða, hvað þá að þau séu niðrandi.

„Nöfnin Kveldúlfur og Skallagrímur hafa því, að mati undirritaðs, fest sig í sessi sem góð og gild nöfn þrátt fyrir þá annmarka sem á þeim eru frá sjónarmiði nafnhefðarinnar. Með því að samþykkja nafnið Skallagrímur á mannanafnaskrá er engan veginn verið að gefa fordæmi fyrir því að önnur auknefni að fornu eða nýju geti öðlast sess sem fullgild mannanöfn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert