Húsbúnaðarsalan sem aldrei hófst

„Er ekkert að gerast?“ gæti þessi áhugasami kaupandi sem ók …
„Er ekkert að gerast?“ gæti þessi áhugasami kaupandi sem ók upp að verslun BT í dag verið að hugsa. mbl.is/Heiddi

Margar einkennilegar fréttir hafa birst í  fjölmiðlum í dag bæði hér á landi og annarstaðar og má væntanlega rekja þær til þess að á dagatalinu stendur 1. apríl. Verður að viðurkenna, að bæði mbl.is og Morgunblaðið hafa í dag sagt fréttir, sem ekki standast ströngustu kröfur um áreiðanlegan fréttaflutning.

Fjölmargir áhugamenn um fallegan húsbúnað lögðu leið sína í húsnæði BT í Skeifunni þar sem sala á húsbúnaði og tækjum úr aðsetrum gömlu bankanna erlendis átti að hefjast kl. 10 í morgun, ef trúa mátti frétt í Morgunblaðinu. 

„Korter yfir níu fóru fyrstu bílarnir að koma,“ segir Eyjólfur Pálsson, kenndur við Epal. Hann segir að fjölmargir hafi beðið spenntir eftir sölunni sem aldrei hófst, enda 1. apríl í dag. Enn er að fólk að reyna að komast inn í húsið að hans sögn.

Morgunblaðið greindi frá því í dag að skilanefndir gömlu bankanna hefðu ákveðið að ráðast í sölu á húsbúnaði og tækjum úr aðsetrum bankanna erlendis. Húsgögn, ljósakrónur og jafnvel stöku eldhústæki voru sögð vera á boðstólnum.

Fram kom í fréttinni að Eyjólfur væri skilanefndinni innan handar við undirbúning sölunnar. Hann segir ljóst að margir hafi látið blekkjast í dag er hann fylgdist með áhugasömum kaupendum í gegnum verslunarglugga Epals, sem stendur andspænis BT. Hann segir að margir hafi t.d. farið út úr bílunum, rykkt í hurðir og leitað að öðrum inngöngum. Allt í þeim tilgangi að gera frábær kaup.

Eyjólfur segir að sumir þeirra, sem hafi verið orðnir leiðir á að bíða, hafi litið við í verslunina til sín þar sem þeir hafi fengið óvæntar fréttir. „Þegar ég sagði að það væri 1. apríl þá hrukku menn við. Menn voru eiginlega ekki búnir að fatta það,“ segir Eyjólfur.

Hann segir jafnframt að margir hafi hringt í verslunina til að spyrjast fyrir um söluna. Þar á meðal einn í Færeyjum og annar í Þýskalandi. Eyjólfur segir að allir hafi tekið vel í spaugið þegar þeir áttuðu sig loks á því að þeir höfðu verið látnir hlaupa apríl.

Eyjólfur segir ljóst að það sé markaður fyrir svona sölu. „Það er mikið af hönnunarhúsbúnaði sem þyrfti að hjálpa fólki að selja. Það þyrfti fagmenn og við höfum verið að spá í að gera þetta,“ segir hann og bætir við að aprílgabb Morgunblaðsins hafi ýtt undir það að þetta verði gert.

Samstaða hvað?

Mbl.is sagði frá því í morgun að samkomulag hefði náðst milli stjórnmálaflokkanna á Alþingi um að leyfa persónukjör fyrir komandi þingkosningar. Samkomulagið fæli í sér að fólk fær að raða á lista eftir skoðunum sínum. Rætt var við stjórnmálaleiðtoga sem fögnuðu allir þessari niðurstöðu.

En engu skipti hvernig fólk kaus því svarið var alltaf það sama: „Ekki er nægur stuðningur við aðild að Evrópusambandinu á listanum sem þú valdir að mati ritstjóra Morgunblaðsins. Við höfum því valið lista fyrir þig.“

Mbl.is vill þakka þeim stjórnmálamönnum, sem veittu góðfúslega leyfi fyrir að nöfn þeirra yrðu „misnotuð" í fréttinni.

Aprílgöbb stór og smá

Ýmsar fréttir í öðrum fjölmiðlum voru afar grunsamlegar, svo ekki sé meira sagt en hér skal þó ekki fullyrt að þær séu ekki sannleikanum samkvæmar. Ríkisútvarpsið  greindi frá því í hádegisfréttum sínum, að skilanefnd Glitnis hefði látið gera upptæka á annan tug bíla auðkýfinganna Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Hannesar Smárasonar. Þá átti svo að selja hæstbjóðanda.

Á fréttavefnum Vísi var sagt frá því að bjór myndi fást gefins við bjórsmökkun í verslun Vínbúðarinnar í Kringlunni í dag. 

Fram kom í DV í dag að stúlknasveitin Girls Aloud væri stödd á Íslandi til að taka upp tónlistarmyndband. Af þeim sökum væri Einar Bárðarson að leita að ungu fólki á aldrinum 18 til 30 ára til að leika í myndbandinu.

Fréttavefurinn Skessuhorn greindi frá því í dag að bakarar á Vesturlandi hefðu farið sameinaðir af stað með nýja framleiðsluvöru, sem héti Vesturlands þrumarinn. Fram kom að brauðið væri bakað við hverahita og deigið hnoðað í steypihrærivél.

Víkurfréttir sagði frá því í morgun að gríðarstórt neðanjarðarbyrgi hefði komið í ljós á fyrrum athafnasvæði Varnarliðsins á Miðnesheiði.

Fréttavefurinn Feykir greindi svo frá því að gröf þriðja ísbjarnarins hefði fundist á skíðasvæði Tindastóls.

Vefurinn bb.is sagði frá því að Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður, hefði endurvakið Fönklistann, sem náði góðum árangri í bæjarpólitíkinni á Ísafirði fyrir nokkrum árum og stefndi á þingframboð enda ekki fundið hljómgrunn í gömlu flokkunum. Einnig var sagt frá væntanlegri heimsókn frægra hljómsveita.

Eyjar.net sagði frá því að Sigur Rós myndi leika á Þjóðhátíðinni í sumar og Eyjafréttir.is sögðu frá því, að  að Samherji hefði fengið síldarkvóta í Vestmannaeyjahöfn og fleiri grunsamlegar fréttir er að finna á þeim vef í dag.

Á vefnum skák.is var síðan sagt frá því, að Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri og Svein Harald Øygard, núverandi seðlabankastjóri, hefðu teflt tveggja skáka einvígi í Listasafni Reykjavíkur fyrr í dag.  Fyrri skákinni hafi lokið með jafntefli en Davíð unnið þá síðari. Davíð hafi beitt þá íslenska leiknum í skandínavískri vörn og  sá norski ekki kunnað svar við því.

Nokkur harka er sögð hafa verið í einvíginu og vildi Davíð meina að Svein Harald hafi leikið ólöglegum leik í fyrri skákinni.  Hannes Hólmsteinn Gissurarson, sem var meðal áhorfenda, hefði þó fullyrt að svo væri og vitnað í grein hins virta skákstjóra Gissjen frá Hollandi sem hann sagðist hafa fundið á netinu með því að nota Google.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert