Lokað og læst á langveika stúlku

Ekki er gert ráð fyrir að langveik börn eldist og þurfi á áframhaldandi aðstoð þjóðfélagsins að halda. Móðir tvítugrar stúlku, sem þarf umönnun nær allan sólarhringinn, segir þjóðfélagið hafa brugðist henni. Ekkert úrræði er í sjónmáli nema elliheimilið í þorpinu þar sem þær búa.

Steinunn Rasmuss, móðir stúlkunnar, segir veikindin falla undir heilbrigðisráðuneytið en fötlunina undir félagsmálaráðuneytið.  Ekkert úrræði sér til fyrir stúlkuna  í kerfinu. Hún sé orðin of gömul.  Rætt var um að koma á sérstöku búsetuúrræði fyrir stúlkuna á Akranesi en frá því hefur nú verið fallið af fjárhagsástæðum.

Rjóðrið  er hvíldarheimili fyrir langveik börn upp að átján ára aldri. Þá tekur ekkert við. Sex börn, skjólstæðingar heimilisins, eru að verða átján ára eða eru orðin það og hafa verið á sérstakri undanþágu.

Guðrún Ragnars deildarstjóri Rjóðursins, segir að það vanti hjúkrunarheimili fyrir þennan aldurshóp. Þau séu oft of veik til að dvelja á sambýlum fyrir fatlaða.  Foreldrarnir eldist, börnin vaxi þeim yfir höfuð en þau þurfi oft sólarhringsumönnun. Fjölskyldur hreinlega gefist upp.

Guðný, dóttir Steinunnar, hefur fengið að dvelja þar til hvíldar á sérstakri undanþágu sem nú er að renna út. Móðirin segir að besta úrræðið væri hjúkrunarheimili fyrir fullorðna langveika sjúklinga, en það er ekki til. Hún gagnrýnir að þjóðfélagið geri ekki ráð fyrir þessum aðstæðum. Læknavísindin geri allt til að bjarga börnunum en það sé ekki gert ráð fyrir að þau eldist.

Fjölskyldan er búsett í Reykhólasveit en þar er eina úrræðið elliheimilið sem er ekki vænlegur staður fyrir tvítuga stúlku. Hún er því einangruð á heimili sínu og foreldrarnir verða að vera frá vinnu til að annast hana.

Sjá MBL sjónvarp.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert