Lántakendur stefna og vilja lánum hnekkt

mbl.is

Allt að 100 lántakendur hjá gömlu bönkunum hafa beðið lögmannsstofuna Lögmenn Laugardal um að reka dómsmál þar sem þeir telja forsendur lána sinna hjá bönkunum brostnar. Þeir ætla meðal annars að láta reyna á ákvæði í samningalögum um að víkja samningi til hliðar í heild eða hluta vegna atvika sem voru við samningsgerðina eða atvika sem síðar komu til.

Björn Þorri Viktorsson, hæstaréttarlögmaður hjá lögmannsstofunni, segir að ákveðið hafi verið að stefna föllnu bönkunum þremur, Landsbanka, Glitni og Kaupþingi sem og nýju ríkisbönkunum. Einnig skoði þeir að stefna fyrrum lykilstjórnendum bankanna og einhverjum eigenda þeirra, sem og stjórnvöldum. Þá segir hann einnig koma til greina að stefna fjármögnunarfyrirtækjum vegna bílalána.

Lögmannsstofan býður lántakendum að taka þátt í málarekstrinum fyrir 59.760 krónur með virðisaukaskatti. Málin verði flokkuð og prófmál rekið í hverjum þeirra, þar sem ekki séu lagaskilyrði til hópmálsóknar hér á landi eins og á hinum Norðurlöndunum. Búist er við að málaflokkarnir verði tólf til fimmtán. „Ég vonast til þess að fyrstu málunum verði stefnt í maímánuði,“ segir Björn. „Hugmyndin með þessu fyrirkomulagi er að allir leggi af mörkum mjög hóflega fjárhæð. Þannig megi virkja samtakamátt fjöldans til að hrinda órétti, öllum til hagsbóta.“

Hafi unnið gegn hagkerfinu

Björn Þorri rekur að þrátt fyrir að ekki séu öll gögn málsins komin í dagsljósið liggi nú þegar fyrir að ákveðnir bankar og æðstu stjórnendur þeirra hafi unnið skipulega gegn hagkerfinu í marga mánuði áður en allt hafi farið á hliðina. Þeir hafi fellt krónuna.

„Þegar krónan fellur með jafnafdrifaríkum hætti hefur það bein áhrif á þá sem skulda í erlendri mynt og það á við um flest fyrirtæki í landinu auk heimila sem svo aftur hefur áhrif á þróun verðbólgu og vísitölu sem öll stærri innlend lán eru bundin við. Þannig að með þessu hafa gömlu bankarnir sjálfir; eigendur og æðstu stjórnendur valdið lántakendum og raunar þjóðinni allri gríðarlegu tjóni.“ Ekki sé hægt að halda því fram að það komi stjórnvöldum ekki við. Þau beri ábyrgð á því hvernig fór; meðal annars með ófullnægjandi og lélegu eftirliti með bankakerfinu og með því að sannfæra menn um góða stöðu íslenska bankakerfisins gegn betri vitund. Þá hafi stjórnvöld yfirtekið eignir gömlu bankanna með verulegum afslætti en rukki þrátt fyrir það lánin í topp.

„Þær forsendur sem samningarnir byggðust á eru allar brostnar. Sá efnahagslegi grundvöllur sem samningarnir byggðust á er í raun og veru algerlega brostinn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert