Leita í skáldsögur í kreppunni

Skáldsögur eru vinsælar
Skáldsögur eru vinsælar mbl.is/Golli

Bóksalan á Íslandi er með öðru móti en til dæmis í Svíþjóð og Bandaríkjunum um þessar mundir. Þar seljast sjálfshjálparbækur eins og heitar lummur en hér leita menn frekar í skáldsögur.

„Skáldsögur í kilju seljast vel þessa dagana. Það er eins og fólk sé að leita að einhverju athvarfi en hafi ekki orku í að fara að takast á við vandann eða þá að við horfumst í augu við erfiðleikana á heilbrigðan hátt. Það getur líka verið að við séum búin að læra mikið í sjálfshjálp,“ segir Bryndís Loftsdóttir, bóksali hjá Eymundsson. Hún bætir því við að bækur um málefni líðandi stundar seljist einnig vel þessa dagana.

Umfjöllunarefnið í sjálfshjálparbókunum sem renna út í Bandaríkjunum er allt frá sparnaðarráðum til ráða um hvernig komast megi hjá uppsögn. Í Bandaríkjunum eru árlega gefnar út um 2.000 sjálfshjálparbækur af margvíslegu tagi.

Sænskir bókaútgefendur feta í fótspor þeirra bandarísku þótt í Svíþjóð komi út miklu færri titlar. Meðal þeirra bóka sem væntanlegar eru á markað þar er bókin „Þannig verða allir Svíar milljónamæringar“ og bókin „Komið auga á möguleikana“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert