Josefsson fannst ganga hægt

Mats Josefsson.
Mats Josefsson.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, staðfesti á Alþingi í dag að sænski efnahagsmálasérfræðingurinn Mats Josefsson hefði haft áform um að hætta störfum fyrir íslensk stjórnvöld.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vísaði til þess að sagt væri frá því á forsíðu Morgunblaðsins, að Josefsson hefði hótað að hætta. Spurði hún Jóhönnu hvort þetta væri rétt og hvort hann hefði sett einhver skilyrði fyrir að halda áfram störfum.

Jóhanna sagði, að það væri vissulega rétt, að Mats Josefsson hefði haft áform um að hætta störfum fyrir íslensk stjórnvöld en þau áform væru ekki lengur uppi. Farið hefði verið yfir stöðuna og athugasemdir Josefssons og menn myndu nú samræma sjónarmið sín.

Jóhanna sagði, að Josefsson teldi, að vinna hefði átt hraðar í endurskipulagningu bankakerfisins en ýmsar ástæður væru fyrir því að það hefði ekki tekist. Þannig hefði mat á bönkunum tekið lengri tíma en ætlað var. Einnig hefði verið ágreiningur í þinginu um afgreiðslu eignaumsýslufélags, m.a. vegna andstöðu sjálfstæðismanna og framsóknarmanna við slíkt félag.

Nú væri frumvarp um slíkt félag komið fram á Alþingi. Þá  myndi ríkisstjórnin afgreiða á næstu dögum eigendastefnu. Allt væru þetta liðir í að ná því fram að endurskipulaging bankanna geti legið fyrir í síðasta lagi í byrjun júlí.  

Þorgerður Katrín sagði, að Josefsson hefði upplýst á fundi með efnahags- og skattanefnd,  að frumvarpið um eignasýslufélag væri ekki eins og  hann hefði kosið að það væri. Ítrekaði Þorgerður spurningu um hvort Josefsson hefði sett einhver þau skilyrði, sem urðu til þess að hann mun starfa hér áfram.

Jóhanna sagði, að Josefsson hefði lagt áherslu á að hraðað yrði vinnu við endurskipulagningu á bönkunum. Jóhanna sagðist geta tekið undir að það hefði verið æskilegt en upp hefðu komið margvísleg vandamál, sem menn vissu ekki um þegar þeir lögðu af stað í þennan leiðangur. Viðræður við kröfuhafa gömlu bankanna hefðu m.a. verið flóknari en gert var ráð fyrir.

Þá væru efnahagsmálin vistuð í þremur ráðuneytum, sem sé ekki skynsamlegt. Sagði Jónanna, að lagt verði innan tíðar fram frumvarp um breytingar á stjórnkerfinu þar sem m.a. verði gert ráð fyrir að að komið verði á einu efnahagsráðuneyti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert