Samstaða fundaði með AGS

Fulltrúar Samstöðu, bandalags grasrótarhreyfinga, funduðu með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í dag. Er þetta í annað sinn sem fulltrúar Samstöðu funda með AGS. Fram kom í máli AGS að Íslendingar megi gera ráð fyrir að í lok þessa árs hafi botni efnahagskreppunnar verið náð.

Fram kemur í tilkynningu að rætt hafi verið um aðkomu AGS að íslensku efnahagskreppunni. Þá segir að aðgerðaráætlun AGS og ríkisstjórnarinnar miði að þremur þáttum; endurreisn banka, endurreisn gjaldmiðilsins og að gera ríkisfjárhaginn sjálfbærann, þ.e að ná jafnvægi í ríkismálum. 

Þá segir að á síðari hluta árs 2010 myndum Íslendingar fara að sjá merki um bata og strax 2011 yrði efnahagskerfið komið í gang að ný, að því er segir í tilkynningu. Þá segir að fram hafi komið hjá fulltrúum AGS að uppgjör bankanna sem hrundu hefði tekið lengri tíma en gert hefði verið ráð fyrir. Í raun mætti að segja að þessa tæpa átta mánuði sem liðnir séu frá hamförunum hefði lítið þokast í aðgerðaráætlun stjórnvalda og AGS.

Segja skort á samstöðu

„Fulltrúar AGS höfðu af því áhyggjur að samstöðu skorti í samfélaginu um aðgerðir og markmið í efnahagsmálum. Gott væri ef núverandi stjórn gæti náð tökum á ástandinu. Hún hefur nú þingmeirihluta og umboð frá kjósendum.

Fram kom hjá fulltrúum AGS að þeir teldu að því fyrr sem til aðgerðanna kæmi, hversu sársaukafullar sem þær vafalaust verða fyrir þjóðina fyrstu mánuðina, því fyrr myndi birta á ný í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Undirrituð spurðu AGS um umdeilda stýrivaxtasefnu.
Fulltrúar AGS sögðust telja að til að ná jafnvægi á útflutningstekjum þjóðarinnar  og koma í veg fyrir algjört hrun á innflutningi til landsins væri nauðsynlegt að halda stýrivöxtum háum um stundarsakir auk gjaldeyrishafta

Undirrituð nefndu einnig vafasama aðkomu AGS inn í efnahrun Argentínu sem endaði því að Argentína ákvað að hætta að greiða erlendum kröfuhöfum skuldir  sínar. Það var greinilegt á fulltrúum AGS að þeim er vel kunnugt um hversu umdeild aðkoma þeirra var í Argentínu

Þeir telja að sú leið væri af ýmsum orsökum illa fær fyrir Ísland. Meðal annars vegna þess að nágrannar Argentínu hefðu sýnt þeim velvilja sem við gætum ekki gengið að sem vísum hjá okkar nágrönnum og vinaþjóðum

Gordon Brown vakti kátínu

Fulltrúar Samstöðu nefndu fullyrðingar Gordon Brown um samskipti breska forstætisráðuneytisins við AGS varðandi Icesave. Þeim virtist skemmt og fullyrtu að slík samskipti hefðu aldrei átt sér stað og myndu aldrei eiga sér stað,“ segir í tilkynningu.

Af hálfu Samstöðu sátu Heiða B Heiðarsdóttir,Sigurlaug Ragnarsdóttir og Árni Daníel Júlíusson.

Af hálfu AGS sátu fyrir svörun; Mark Flannigan og Franek Roswadowski.

Fyrri fundurinn átti sér stað þann 10. mars 200.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert