Ferjan sem landpóstur í Flatey

Starfsemi pósthússins í Flatey hefur verið hætt, en umsvif þar …
Starfsemi pósthússins í Flatey hefur verið hætt, en umsvif þar hafa ekki verið mikil.

Afgreiðslu Póstsins í Flatey á Breiðafirði var lokað um síðustu mánaðamót og er sú breyting liður í nauðsynlegri hagræðingu í rekstri Íslandspósts. Í Flatey þjónar ferjan Baldur sem landpóstur hér eftir.

Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, segir að afgreiðslunni í Flatey hafi verið lokað þar sem umsvif hafi verið lítil og starfsemin þar engan veginn staðið undir sér. Lengi hafi verið tilefni til að loka, en látið var verða af því núna þegar afgreiðslustjórinn lætur af störfum vegna aldurs.

Í Flatey verða útburðar- og móttökumál leyst með þeim hætti að póstkassar hafa verið settir upp við bryggjuna og þjónar Breiðafjarðarferjan Baldur Flateyingum sem landpóstur.

Tvær fjölskyldur búa í Flatey allt árið, en fólk er í flestum húsum yfir sumarið. Talsvert er um ferðamenn í Flatey og hafa þeir gjarnan fengið póststimpil í eynni, en héðan í frá verður póstur stimplaður um borð í Baldri.

Ingimundur segir að Íslandspóstur hafi lokað afgreiðslum á nokkrum stöðum á undanförnum árum og tekið upp samstarf við rekstraraðila á öðrum stöðum, þar sem tilefni hefur verið til. Fyrirtækið sé stöðugt með í endurmati hvar þörf sé á rekstri pósthúsa eða -afgreiðslna.

Póstafgreiðsla á hjólum

„Við höfum tekið upp póstafgreiðslu á hjólum í auknum mæli með landpóstunum,“ segir Ingimundur. „Það er okkar mat og við heyrum ekki annað frá viðskiptavinum en að þjónustan hafi í flestum tilvikum batnað með þessum breytingum.

Hlutverk landpóstanna, þar sem ekki eru afgreiðslur, er að taka á móti sendingum og skila heim á bæi. Þetta fyrirkomulag hefur gefist vel, til dæmis á Borgarfirði eystra, í Eyjafirði og víðar um land,“ segir Ingimundur.

Langflestir bæir á Íslandi njóta þjónustu Póstsins fimm daga vikunnar. Frá því er þó 81 undantekning þar sem þjónustan er þrjá daga í viku og eru undantekningarnar einkum á Barðaströnd, í Arnarfirði, Inn-Djúpi, á Ströndum, í Grímsey og á Möðrudal.

Í hnotskurn
» Tvær fjölskyldur búa í Flatey á Breiðafirði árið um kring en yfir sumarið fjölgar íbúum allverulega.
» Flatey er vinsæll áningarstaður ferðamanna á sumrin en nú verða þeir að fá póstinn stimplaðan um borð í Baldri.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert