SUS heiðrar Davíð Scheving og Hugmyndaráðuneytið

Davíð Scheving Thorsteinsson.
Davíð Scheving Thorsteinsson.

Samband ungra sjálfstæðismanna afhendir á morgun Frelsisverðlaun SUS sem gefin eru til heiðurs Kjartani Gunnarssyni, fyrrum framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins. Að þessu sinni hefur SUS ákveðið að veita verðlaunin Davíð Scheving Thorsteinssyni og Hugmyndaráðuneytinu.

Verðlaunin verða afhent í Valhöll við Háaleitisbraut kl. 17.30. Öllum áhugasömum er velkomið að sækja verðlaunaafhendinguna, að því er segir í tilkynningu.

„Davíð Scheving Thorsteinsson hefur allan starfsferil sinn farið ótroðnar slóðir í íslensku viðskiptalífi. Á tímum viðskiptahafta og skömmtunar lagði Davíð til atlögu við hið opinbera í því skyni að geta boðið Íslendingum upp á meira úrval og fjölbreytni. Þannig hefur athafnasemi hans og útsjónarsemi í viðskiptum verið meðborgurum hans til hagsbóta,“ segir í tilkynningu.

„Hugmyndaráðuneytið er staður þar sem hugsuðir og fagmenn frá ólíkum sviðum atvinnulífsins, háskólunum og stjórnsýslunni hittast og skiptast á hugmyndum, reynslusögum, hlusta á fyrirlestra, mynda tengsl og veita hvert öðru stuðning til framkvæmda. Starfsemi Hugmyndaráðuneytisins snýst um að reyna að virkja einstaklinginn til framkvæmda og þannig virkja atvinnulífið án þess að hið opinbera sé að blanda sér í það starf,“ segir einnig í tilkynningu.

Frelsisverðlaun SUS voru afhent í fyrsta skipti árið 2007.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert