Svifið af Snæfellsjökli

Elín G. Gunnlaugsdóttir varð hinn 6. júní fyrst að eigin sögn til að fljúga ellegar svífa á svifvæng (e. paraglide) ofan af Snæfellsjökli og á jafnsléttu. Veit hún ekki til þess að þetta hafi verið gert áður á nokkru vélarlausu farartæki. Tók hún flugið nánast frá toppi jökulsins, í um 1.400 metra hæð, en á bilinu 10 til 15 mínútur tók að svífa til jarðar.

„Ég fór af algerri rælni þarna upp um síðustu helgi og var hrædd um að ég gæti ekkert komist í loftið, því það eru alls konar veður þarna,“ segir Elín en hún naut liðsinnis ókunnugs vélsleðakappa við að komast upp á jökulinn. Hann og félagar hans fylgdust svo með Elínu taka flugið ofan af jöklinum rétt austan Jökulþúfu. „Og ég er eiginlega ekki lent ennþá,“ segir Elín og hlær en hana hefur lengi dreymt um að láta verða af þessu flugi.

Hefur svifið um víða veröld

Elínu finnst viðeigandi að hún verði fyrst til þess að framkvæma þetta, en hún er fædd og uppalin á Hellnum undir jöklinum. Hún hefur áður flogið svifvæng víða um heim, meðal annars í Kólumbíu, Dóminíska lýðveldinu, Tyrklandi, Frakklandi og á Spáni. Hún segir þó að Snæfellsjökulsflugið standi upp úr en það sem næst því komist hafi verið þegar hún flaug yfir Monte Carlo í Mónakó.

„Það er rosalega mikið um þetta erlendis, við erum frekar sein á ferð. Þetta byrjar ekki hér fyrr en árið 2000,“ segir Elín um svifvængsflug hér á landi. Hún lærði flugið árið 1996 í Þýskalandi. Nú býður Fisfélag Reykjavíkur upp á námskeið í þessari jaðaríþrótt en Elín telur að enn sem komið er séu aðeins um fimmtíu virkir iðkendur á landinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert