Ríkishlutafélög undir kjararáð

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi í dag lagafrumvarp um kjararáð sem gerir ráð fyrir því, að hlutafélög í eigu ríkisins, bæði að öllu leyti og að hluta, ýmsar stofnanir og sjóðir falli undir kjararáð sem ákveðið þá laun stjórnenda. 

Dæmi um slík fyrirtæki og stofnanir eru Ríkisútvarpið, Landsvirkjun og Íbúðalánasjóður. Samkvæmt frumvarpinu mun kjararáð fjalla um launakjör stjórnenda þessara fyrirtækja og stofnana og hafa til hliðsjónar þá stefnu ríkisstjórnarinnar, að engin laun í ríkiskerfinu verði hærri en laun forsætisráðherra. 

Fram kom hjá Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, að ekki væri gert ráð fyrir að þessi breyting ein og sér sparaði ríkinu mikil útgjöld. Hins vegar væri ljóst að hún myndi hafa í för með sér breytingar á launakerfinu innan viðkomandi fyrirtækja og stofnana.

Þá var tekin ákvörðun um það á ríkisstjórnarfundinum, að fallið verði í bili frá öllum nýjum þjóðlendukröfum ríkisins. Að sögn Steingríms hefur kostnaður vegna þessara mála farið vaxandi og numið nokkur hundruð milljónum króna árlega.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert