Sjóvá tapar yfir 3,2 milljörðum króna í Hong Kong

Turn IV í Macau, sem Sjóvá hafði keypt að hluta, …
Turn IV í Macau, sem Sjóvá hafði keypt að hluta, er í Macau, nálægt Hong Kong. Reuters

Frá því var greint í Hong Kong í gær, að Sjóvá-Almennar hefðu samið við verktakafyrirtækið Shun Tak um að rifta kaupsamningi um 68 lúxusíbúðir í Turni IV í Macau, í grennd við Hong Kong. Sjóvá tapar af þessum sökum ríflega 3,2 milljörðum króna, eða um 25 milljónum bandaríkjadala.

Hörður Arnarson, forstjóri Sjóvár, staðfesti þetta í samtali við Morgunblaðið í gær. Hann sagði að þrátt fyrir þetta tap og miskabætur sem félagið hefði fallist á að greiða til þess að losna frá samningnum, þá væru forsvarsmenn félagsins „mjög ánægðir að vera komin út úr þessum samningi“. Hann sagði að þetta hefði verið hagkvæmasta útleiðin fyrir Sjóvá, því félagið hefði ekki haft fjárhagslega burði til þess að greiða 70 milljónir dollara fyrir árslok, eins og kaupsamningurinn gerði ráð fyrir.

Heildarkaupsamningurinn hljóðaði upp á 100 milljónir bandaríkjadala og hafði tæplega þriðjungurinn verið greiddur, eða um 30 milljónir dollara. Í samningnum var klásúla sem heimilaði verktakanum að krefjast fullnaðargreiðslu á þessu ári, eða um 70 milljóna bandaríkjadala að auki.

„Við höfðum ekki burði til þess að fjármagna það sem eftir var af kaupverðinu,“ sagði Hörður.

Í dagblaðinu South China Morning Post í Hong Kong er greint frá samningsslitum Sjóvár og rætt við talsmann Shun Tak sem segir að samkomulagið sem gert hafi verið við Sjóvá þýði umtalsverðan hagnað fyrir Shun Tak.

Í dagblaðinu er einnig greint frá því, að áhugasamir kaupendur hafi viljað ganga inn í kaupsamning Sjóvár, sem hefði þýtt að félagið hefði ekki tapað nándar nærri jafn miklum fjármunum og við það að rjúfa samninginn við Shun Tak og greiða miskabætur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert