Fjögur dæmd fyrir rán á Arnarnesi

 Tveir karlmenn voru í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdir í tveggja ára og tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að brjótast inn á heimili aldraðs fólks á Arnarnesi í apríl, rænt það og beitt ofbeldi. Tvær stúlkur voru dæmdar í fimmtán mánaða og fimm mánaða fangelsi vegna þátttöku í ráninu.

Hlynur Ingi Bragason var dæmdur í fangelsi í tvö ár og jafnframt sviptur ökurétti ævilangt frá dómsbirtingu að telja. Var það vegna aksturs undir áhrifum áfengis á síðasta ári sem hann var sviptur ökuréttindum en dæmt var einnig í því máli í dag.  Frá refsingunni dregst 65 daga gæsluvarðhaldsvist. Kristjáni Víði Kristjánssyni er gert að sæta fangelsi í tvö ár og sex mánuði.  Frá refsingunni dregst 66 daga gæsluvarðhaldsvist. Tvítug stúlka var dæmd í fimmtán mánaða fangelsi en önnur stúlka var dæmd í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Fjórmenningarnir fóru akandi laugardagskvöldið 23. apríl sl. að einbýlishúsi hjóna á áttræðis og níræðis aldri við Mávanes en þau eru afi og amma stúlkunnar sem fékk skilorðsbundinn dóm.  Fjórmenningarnir voru allir í fíkniefnaneyslu og vildu verða sér úti um verðmæti til þess að kaupa fyrir fíkniefni.  Hjónin sátu í herbergi á neðri hæð hússins að horfa á sjónvarp.  Hlynur Ingi og Kristján Víðir fóru úr bílnum og höfðu með sér flökunarhníf.  Þeir knúðu dyra á efri hæðinni og þegar konan lauk upp ruddust þeir inn.  Kristján Víðir tók hana tökum og lagði hana á gólfið en Hlynur, sem hélt á hnífnum, fór niður í sjónvarpsherbergið þar sem maðurinn sat.  Neyddi hann manninn til þess að koma með sér upp á efri hæðina þar sem konan lá á gólfinu og Kristján Víðir stóð yfir henni.   Var maðurinn látinn leggjast á gólfið hjá konu sinni.  Kristján Víðir hóf að draga manninn eftir gólfinu í átt að tröppunum niður á neðri hæðina en hætti við það þegar konan bað honum vægðar.  Tók Hlynur Ingi að sér að gæta hjónanna, sem lágu á grúfu á gólfinu, meðan Kristján Víðir fór um húsið í leit að verðmætum og lét greipar sópa. 

Að svo búnu höfðu þeir sig á brott með ránsfenginn og út í bílinn þar sem stúlkurnar biðu þeirra en áður höfðu símalínur verið skornar í sundur.  Ók fólkið á brott og skipti með sér fengnum.  Var sumt selt og reynt að selja annað en upp komst um fólkið þegar önnur stúlkan og Kristján Víðir reyndu að selja gullsmið skartgripi úr ráninu þremur dögum seinna. 

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að við ákvörðun refsingar þriggja hinna ákærðu var haft í huga  harðýðgi þeirra að ryðjast inn á heimili aldraðs fólks seint um kvöld til þess að ræna það verðmætum með ofbeldi og líflátshótunum. Karlarnir tveir hafa báðir hlotið dóma áður en þetta er fyrsti dómur stúlkunnar. Barnabarn hjónanna, sem fékk fimm mánaða skilorðsbundinn dóm var á sautjánda ári þegar hún framdi brot sitt og var horft til ungs aldur hennar við ákvörðun refsingarinnar  Á hinn bóginn orkar það til þyngingar refsingunni að brot hennar beindist að heimili aldraðs fólks sem voru auk þess afi hennar og amma, að því er segir í niðurstöðu dómsins.

Þeir Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsókarlögreglunnar, og Stefán Eiríksson lögreglustjóri …
Þeir Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsókarlögreglunnar, og Stefán Eiríksson lögreglustjóri sögðu málið nánast fordæmalaust á blaðamannafundi sem haldinn var eftir ránið. Júlíus Sigurjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert