Fundað fram á kvöld um ESB

Bjarni Benediktsson á Alþingi
Bjarni Benediktsson á Alþingi mbl.is/Ómar

Stífir fundir eru í utanríkismálanefnd Alþingis um bæði Icesave-samningana og tvær tillögur að ESB-umsóknaraðild. Niðurstöðu enn ekki náð.

„Mér finnst það allt með miklum ólíkindum hvernig staðið er að vinnslu þessa máls, að áður en búið er að útkljá deilu við ESB-ríki um niðurstöðu Icesave-samninganna séu menn að leggja upp með það að við Íslendingar leggjum inn umsókn um Evrópusambandsaðild,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.

Fundað var í utanríkismálanefnd Alþingis um kvöldmatarleytið í gær þar sem teknar voru fyrir tillögurnar tvær um ESB-aðild.

Þjóðin eigi síðasta orðið

Að sögn Bjarna var á fundinum hreyft við ólíkum áherslum flokkanna til málsins en enn sé óljóst hvernig málum lykti í meðförum nefndarinnar.

„Við ítrekuðum fyrri afstöðu okkar og ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins um að rétt væri að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort hefja ætti aðildarviðræður og eins að ekki komi annað til greina en að þjóðin eigi síðasta orðið í málinu.“

Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og varaformaður utanríkismálanefndar, segir að lítil skref séu tekin á hverjum fundi en nefndarmenn vilji að sjálfsögðu vanda sig við umfjöllunina.

Boðað hefur verið til áframhaldandi funda um ESB-aðild á morgun og stefnt að því að málið verði tekið aftur til umfjöllunar Alþingis innan skamms.

Fundað var í gær um Icesave-málið á milli samninganefndarinnar og fjárlaga- og utanríkisnefndar auk skilanefndar og skiptastjórnar Landsbankans.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins náðist engin niðurstaða á fundunum heldur var málið kynnt frá öllum hliðum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert