Óvíst um ábyrgð á Icesave

Icesave reikningur Landsbankans
Icesave reikningur Landsbankans Retuers

„Í stuttu máli þá höfum við hvorki fundið neina skriflega staðfestingu þess að Ísland hafi formlega undirgengist að ábyrgjast skuldbindingar Tryggingasjóðs innstæðueigenda, hvað varðar Icesave-innstæðurnar, né undirgengist aðrar skuldbindingar en þær sem felast í tilskipuninni eins og hún var innleidd í lögum 98/1999.“

Þetta stendur í áður óbirtu áliti sem lögmannsstofan Mischon de Reya í London skilaði Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra 29. mars sl. Þar er vegið og metið hvort Íslandi beri að ábyrgjast lágmarksinnstæður á Icesave-reikningum eða hvort nóg sé að stofna innstæðutryggingasjóð í sama tilgangi. Í greinargerð með Icesave-frumvarpinu kemur fram að samninganefndin hafi notið aðstoðar Mischon de Reya, en þar er álitsins hvorki getið, né fylgir það gögnum sem lögð voru fram.

„Að lokum, hvað sem öðru líður, þá er það okkar skilningur, af þeim íslensku lögfræðiálitum sem okkur hafa verið fengin, að slíkt samkomulag um að ábyrgjast Tryggingasjóð innstæðueigenda myndi alltaf þurfa lögformlegt samþykki Alþingis Íslendinga til að verða lagalega bindandi.“

„Fáguð“ lögfræðiálit ekki afdráttarlaus

Morgunblaðið hefur undir höndum eintak af skýrslunni, þar sem segir að þrátt fyrir að lögfræðiálit breskra og hollenskra stjórnvalda séu „fáguð“, þá liggi ekki fyrir að þau veiti „afdráttarlaust svar“ við þessari spurningu, einkum þegar litið sé til yfirlýsts markmiðs tilskipunarinnar. „Evrópskar tilskipanir eru ekki alltaf fullkomlega skýrar og þessi er engin undantekning þar á, og það eru röksemdir á báða bóga, en við höfum enn ekki fundið skýr svör sem sýna fram á að Íslandi beri skylda til að ábyrgjast greiðslur innstæðutryggingasjóðsins. Þess vegna teljum við að það sé höfuðatriði fyrir íslensk stjórnvöld að fela okkur að vinna afdráttarlaust lögfræðiálit af leiðandi málafærslumanni.“

Jafnframt segir að „ruglingslegar“ og „mótsagnakenndar“ yfirlýsingar stjórnvalda í bréfum viðskiptaráðuneytisins í fyrra „hjálpi ekki upp á sakirnar“, en þó sé ekki lagalega bindandi fyrir Ísland að ganga lengra en tilskipunin og EES-samningurinn mæli fyrir um. „Viðmiðin frá 16. nóvember eru kjarni málsins að okkar mati, sem voru einfaldlega lyktir deilunnar á þessum tíma. Þar er einungis sagt að tilskipunin eigi við um Ísland á sama hátt og önnur ESB-ríki.“ Lögmannsstofan telur að yfirlýsingar ráðherra síðan þá og viljayfirlýsing Íslands og Hollands frá því í október hafi ekki nein réttaráhrif.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert