Hundruð mynda og hrottaskapur

mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Á sjöunda hundrað myndir og 20 myndskeið fundust í tölvubúnaði manns sem í gær var dæmdur í átta ára fangelsi fyrir líkamsárásir og gróf kynferðisbrot gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni. Myndirnar og myndskeiðin voru nær öll af konunni en fleiri en einn karlmaður komu við sögu. Í dómi héraðsdóms yfir manninum kemur fram að hann beitti konuna ofbeldi að lágmarki aðra hverja viku og stóð ofbeldið í hartnær tvö ár.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur yfir tæplega fertugum karlmanni sem kveðinn var upp í gær hefur vakið athygli fyrir margra hluta sakir. Brot mannsins eiga sér enga hliðstæðu í réttarframkvæmd hér á landi og taldi dómurinn að maðurinn ætti sér engar málsbætur. Spurningar hafa vaknað um þátt þeirra ellefu manna sem tóku þátt í ofbeldi gegn konunni en enginn þeirra var ákærður. Í gögnum málsins voru þó meðal annars ljósmyndir sem sýna konuna grátandi í kynferðismökum við aðra menn en þann sem dæmdur var. Þá má draga þá ályktun af framburði manna sem þátt tóku í ofbeldinu og komu fyrir dóminn að þeim hafi verið ljóst að aðstæður voru ekki eðlilegar. Fram kom fyrir dómi að einn þeirra spurði hvort sambýlismaðurinn væri að drottna yfir konunni og annar hætti í miðjum klíðum, sagðist ekki geta tekið þátt í verknaðinum.

Ofbeldi mannsins gegn konunni var hrottafengið og stóð linnulítið í tvö ár. Það var þó ekki fyrr en að kvöldi 10. janúar 2008 sem maðurinn var handtekinn. Þá hafði konan lagt fram kæru á hendur honum. Húsleit var framkvæmd á heimili mannsins og hann handtekinn.

664 myndir og 20 myndskeið

Í leitinni lagði lögregla hald á Apple Macintosh fartölvu, Olympus stafræna myndavél, Samsung Digimax stafræna myndavél, tvo minnislyklar, Seagate harðan diskur, IBM fartölvu, tvo Nokia 6120 farsíma, Nokia 1600 farsíma og geisladisk.

Við rannsókn á tölvubúnaðinum og símunum fundust ljósmyndir sem sýndu fullorðið fólk í kynlífsathöfnum. Alltaf var um sömu konuna að ræða en fleiri en einn karlmann.

  • Macintosh fartölva: 211 ljósmyndir sem sýna fullorðið fólk við kynlífsathafnir. Líklega alltaf um sömu konuna að ræða en fleiri en einn karlmaður kom við sögu
  • Olympus myndavél: 3 myndskeið sem sýna hafi fullorðið fólk í kynlífsathöfnum
  • Samsung myndavél: 16 myndskeið og 105 ljósmyndir. Allar ljósmyndirnar og myndskeiðin sýna sömu konuna í kynlífsstellingum. Í einu myndbandanna sést bregða fyrir karlmanni
  • Minnislykill: 58 ljósmyndir sem sýna fullorðið fólk í kynlífsathöfnum. Um er að ræða sömu konuna í öllum tilvikum en fleiri en einn karlmann
  • Seagate harður diskur: 227 ljósmyndir sem sýna fullorðið fólk í kynlífsathöfnum. Í öllum tilvikum er um sömu konuna að ræða en fleiri en einn karlmann
  • IBM fartölva: 63 ljósmyndir sem sýna fullorðið fólk í kynlífsathöfnum. Í öllum tilfellum er um sömu konu að ræða en fleiri en einn karlmann
  • Nokia 6120 farsími: 1 myndskeið sem sýnir fólk í kynlífsathöfnum.

Alls er um að ræða 664 ljósmyndir sem maðurinn tók og 20 myndskeið, samkvæmt skýrslu lögreglunnar.  Á hluta myndanna má sjá konuna með áverka eins og eftir barsmíðar. Nokkrar myndanna voru lagðar fram við meðferð málsins fyrir dómi.

Ofbeldi aðra hverja viku í tvö ár

Í dómi héraðsdóms segir að maðurinn hafi markvisst brotið niður mótstöðuafl sambýliskonu sinnar og gert hana sér undirgefna. Af ótta við barsmíðarnar hafi konan tekið þátt í kynlífsathöfnum með fjölmörgum mönnum sem hún ekki þekkti. Dómurinn segir háttsemi mannsins hafa verið einkar ófyrirleitna.

Konan lýsti því við skýrslutökur hjá lögreglu að ástæða árása mannsins og ofbeldis hafi jafnan verið sú, að maðurinn hafi farið að yfirheyra konuna um fyrrverandi kærasta hennar. Hafi það verið í þeim tilvikum að konan hafi ekki viljað að heim til þeirra kæmu karlmenn til að stunda kynlífsathafnir með þeim. Þá hafi maðurinn einnig sífellt verið að kvarta undan því að konan borðaði ekki nægjanlega mikið. Hafi maðurinn reiðst snögglega. Þau hafi setið saman í sófa og ákærði lamið með olnboga í konuna og höggið komið í síðu hennar. Í framhaldi hafi hann staðið á fætur og slegið með flötum lófa í höfuðið og höggið komið í andlit hennar. Þá hafi hann slegið hana með krepptum hnefa í upphandlegg og læri. Hafi hann kastað henni til í sófa. Konan kvaðst oft hafa verið svört af marblettum á handleggjum og lærum.

Líkamsárásir af hálfu mannsins hafi átt sér stað að lágmarki aðra hverja viku. Konan segist aldrei hafa náð að jafna sig á milli. Reynt var að leyna ofbeldinu og bannaði maðurinn konunni fara ein til læknis af ótta við að málið kæmist upp. Í dómnum segir að konan hafi stundað meistaranám við HÍ en orðið að hætta því vegna spurninga frá samnemendum sínum.

Á slysadeild eftir hrottafengna árás

Svo illa lék maðurinn konuna haustið 2007 að flytja þurfti hana á slysadeild. Þá hafði lögregla verið kölluð að heimili fólksins vegna óláta. Maðurinn hafði gengið í skrokk á föður sínum og hótað honum lífláti og var í átökum við föður sinn og nágranna úti við þegar lögregla kom að. Konuna fann lögregla hins vegar, rennvota, í hnipri uppi í rúmi og illa útleikna vegna barsmíða mannsins. Sjúkrabifreið var kölluð til vegna alvarlegar áverka konunnar.

Í læknisvottorði sérfræðings á slysa- og bráðadeild segir að við skoðun hafi konan verið mjög meðtekin af verkjum í skrokknum og sérstaklega í hægri hluta andlits. Á höfði var mikið mar hægra megin sem náði frá gagnauga og niður á háls. Allt þar á milli var stokkbólgið og auðsjáanlega talsverð blóðmassasöfnun þar undir í mjúkvefjum. Konan átti erfitt með að opna munninn og kvartaði vegna eymsla frá neðri kjálka. Við frekari líkamsskoðun komu í ljós fleiri sjáanlegir áverkar og voru þeir taldir eldri. Í skýrslu sérfræðingsins segir að konan hafi verið með fjölda marbletta og yfirborðsáverka á handleggjum og lærum. Ekki gátu röntgenlæknar sýnt fram á beinbrot, hvorki í höfuðkúpu eða í andlitsbeinum. Hins vegar lýstu þeir mikilli bólgu hægra megin í andliti hennar og var eyra og eyrnagangur allt meira og minna blátt og mjög þrútið. Greining væri yfirborðsáverki á öðrum hluta höfuðs, mar á öxl og upphandlegg, mar á læri, rifbrot og rof á hljóðhimnu hægra megin.

Í skýrslu sérfræðingsins segir að konan hafi orðið fyrir fólskulegri árás og hefði töluvert mikla yfirborðsáverka, rifbrot og sprungna hljóðhimnu. Hún væri einnig með gamla áverka á efri og neðri útlimum. Áverkar í andliti hægra megin og sprungin hljóðhimna bentu til að konan hafi verið slegin a.m.k. nokkrum sinnum á þennan stað til að geta fengið svo mikla sjáanlega áverka.

Tilvikin um hrottafengið ofbeldi mannsins eru fjölmörg en sjaldnast leitaði konan læknisaðstoðar vegna áverka sem af því hlaust. Þá skar hann á öll tengsl konunnar við aðra og sá til þess að hún gæti ekki verið í samskiptum við fjölskyldu, vini eða samstarfsfélaga.

Í dómi héraðsdóms segir að afleiðingar brota mannsins séu alvarlegar en þau hafi valdið konunni gífurlegu andlegu tjóni, auk líkamlegra áverka. Eftir þetta langvarandi kynferðislega, líkamlega og andlega ofbeldi sé alls óvíst hvort konan muni nokkurn tíma ná sér í framtíðinni.

Dómur héraðsdóms Reykjavíkur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert