Magma ætlar sér ekki að verða ráðandi í HS Orku

mbl.is

„Við sáum að það var möguleiki fyrir hendi til að fara inn í HS Orku sem lítill hluthafi með rúmlega tíu prósent eignarhlut og um leið hjálpa Geysi Green Energy og HS Orku fjárhagslega,“ segir Ross Beaty, stjórnarformaður og forstjóri kanadíska fyrirtækisins Magma Energy, sem ætlar að kaupa 10,8 prósent hlut í HS Orku.

Kaupin eru hluti af stærra samkomulagi milli Reykjanesbæjar og Geysis Green Energy (GGE). Ef af þeim verður mun GGE eiga rúmlega helmingshlut í HS Orku.

Hluturinn gæti orðið stærri

Beaty leggur mikla áherslu á að Magma Energy ætli sér ekki að verða ráðandi aðili í HS Orku sem stendur og hafi engin áform um að skipta sér af rekstri orkuvera fyrirtækisins.

„Hlutur okkar gæti orðið stærri, en þetta var sá hlutur sem var í boði núna. Eftir að þetta skref klárast gætu skapast tækifæri til að auka eignarhlut okkar lítillega en við verðum bara að horfa á þau þegar þau bjóðast. Það er ekki rétt að gera það í dag. Við ætlum okkur ekki að koma með neinum hætti að rekstri virkjana HS Orku. Þau eru rekin af einhverjum færustu jarðvarmasérfræðingum í heimi. Þar höfum við engu við að bæta. Við ætlum okkur heldur ekki að falast eftir fulltrúa í stjórn félagsins. En það sem við getum bætt við þetta er fjármagn. Við getum bætt við tækifærum fyrir þá Íslendinga sem starfa í þessum jarðvarmageira til að taka þátt í verkefnum á alþjóðavísu. Takmark mitt er að byggja upp heimsklassa fyrirtæki,“ segir forstjórinn. Beaty staðfestir að Magma Energy hafi verið í sambandi við Arctica Finance, sem sér um mögulega sölu á hlut Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og Hafnarfjarðar í HS Orku, en saman eiga þessir aðilar um 32 prósent. „Ég held reyndar að þeir [innsk. blaðam. OR] hafi sent upplýsingar sínar til um 30 fyrirtækja og við vorum bara eitt þeirra. Það eru margir aðrir sem gætu verið áhugasamir um að kaupa þann hlut. En það eru önnur tækifæri innan HS Orku til að auka hlut okkar lítillega með því að setja aukið fjármagn inn í fyrirtækið í gegnum hlutafjáraukningu. Með því værum við að hjálpa öllum hluthöfum fyrirtækisins.“ Ítarlegra viðtal við Beaty mun birtast í Viðskiptablaði Morgunblaðsins á morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert