Svarar ekki fræðilegum spurningum

Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir.
Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir. Kristinn Ingvarsson

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagðist á Alþingi í dag ekki svara fræðilegum spurningum þegar Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks, spurði um afstöðu hans til mistaka við gerð Icesave-samningana.

Höskuldur sagði málsmetandi lögfræðinga hafa sagt sér að mistök hafi verið gerð við samningana. Þeir hafi rekist á ákvæði sem áréttar að sjóðirnir muni njóta jafnræðis þegar kemur að úthlutun úr búi Landsbankans. Þeir fái kröfur sínar í jöfnun hlutföllum.  „Og það er fullyrt að þetta sé í samræmi við þá túlkun á gjaldþrotalögum sem almennt hefur verið uppi. Nú er það reyndar þannig, að það er þveröfugt við þá túlkun sem hefur gilt í íslenskum lagarétti og það leiðir til þess að útreikningur er rangur.“

Höskuldur sagði að mistökin gætu leitt til þess að íslenska ríkið þurfi að greiða 50-100 milljörðum króna meira en ella. Spurði hann utanríkisráðherra hvort það myndi ekki leiða til forsendubrests og hafna skyldi frumvarpinu.

Össur sagðist ekki efast um sannleiksgildi frásagnar þingmannsins og það væri í samræmi við þingskyldur hans að leiða lögmennina fyrir fjárlaganefnd - þar sem hann situr - til að fá þessar skoðanir fram. Nefndin komist svo að niðurstöðu um það hvort hugsanlegur forsendubrestur sé á málinu. Sjálfur sagðist hann ekki fær um að kveða úr um það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert