Mýrarbolti á heimasíðu Canon

Mýrarbolti er ekki sérlega hreinleg íþrótt.
Mýrarbolti er ekki sérlega hreinleg íþrótt. mynd/bb.is

Margir útlendingar hafa haft samband við aðstandendur Mýrarboltamótsins og lýst áhuga á mótinu. Hluta þessa áhuga má eflaust rekja til þess að einn sigurvegara í alþjóðlegri ljósmyndasamkeppni Canon valdi sem verðlaun að fara á Mýrarboltamót. Sýnt er frá mótinu á heimasíðu Canon.

Jón Páll Hreinsson, forstöðumaður Markaðsstofu Vestfjarða, sagði að aldrei hafi jafn margar erlendar fyrirspurnir um Mýrarboltamótið borist og nú. Aukins áhuga varð vart seinni part vetrar. 

„Menn hafa samband og segja: Við erum að ferðast á Íslandi og höfum áhuga á að taka þátt í Mýrarboltamótinu. Hvar getum við skráð okkur? Við höfum aldrei lagt neina áherslu á alþjóðlega tengingu Mýrarboltans,“ sagði Jón Páll.

Canon efndi til alþjóðlegrar ljósmyndasamkeppni áhugaljósmyndara í fyrra. Almenningur og dómnefnd þekktra ljósmyndara völdu síðan úr myndunum. Verðlaunin í hverjum flokki voru þau að sigurvegarinn mátti velja sér „ljósmyndaferð ævinnar“ og fara á viðburð eða áhugaverðan stað í heiminum á kostnað Canon. 

David Bernard frá Tékklandi sigraði í flokki íþróttaljósmynda. Hann valdi að fara með félögum sínum til Ísafjarðar um síðustu verslunarmannahelgi og taka þar þátt í Mýrarboltamótinu.  Kvikmyndatökumenn á vegum Canon fylgdu þeim félögum og gerðu stutta heimildarmynd sem sýnd er á heimasíðu Canon.

Jón Páll sagði þetta ljóst dæmi þess að Mýrarboltamótið þyki þess virði að taka þátt í því. „Við sóttumst ekki eftir þessu. Þeir höfðu samband og komu hingað,“ sagði Jón Páll. 

Frétt Canon um um ferð David Bernard á Mýrarboltamótið

Heimasíða Mýrarboltamótsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert