Reykkafarar komu með þyrlu LHG

mbl.is/Ómar

Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti fyrir stundu við Hótel Valhöll á Þingvöllum með reykkafara frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. TF-GNA flaug með slökkviliðsmenn á Þingvelli og er nú á leið til baka en TF-LIF er á leið á Þingvelli með svokallaða slökkvifötu sem er hengd neðan í þyrluna. Þyrlan verður í viðbragðsstöðu á staðnum ef eldur læsist í gróður á svæðinu.

Slökkvifötu er dýft í vatn og þannig fyllt, skjólan er tæmd með því að rafknúinn loki í botni hennar er opnaður og  vatnið streymir út. Hámarksburðargeta skjólunnar er um 2100 kg  en hægt er að minnka og auka vatnsmagnið í fjórum þrepum frá tæplega 1500 kg upp í fyrrnefnd 2100 kg.

Slökkvifata þyrlunnar er mikilvægt verkfæri við að ráða niðurlögum elda á svæðum sem farartæki slökkviliðsins geta ekki af einhverjum ástæðum nálgast. 

Talið að allir hafi komist út

Slökkvilið sem kom fyrst á staðinn sendi ekki reykkafara inn í húsið en fullvíst var talið að allir hefðu komist út.

Slökkvilið beinir því til almennings að halda sig í góðri fjarlægð frá brunastað vegna sprengihættu. Það á bæði við um þá sem eru á jörðu niðri og í lofti en nokkrar flugvélar eru yfir svæðinu. Olíutankur er bakvið Hótel Valhöll og er óttast að hann geti sprungið.

Þá er verið að beina áhorfendum, sem komið hafa sér fyrri á barmi Almannagjár, burtu vegna reykjarkófs sem þar leggur yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert