Berjatínsla fer að verða miðsumariðja

Berjabragð í haustsólinni
Berjabragð í haustsólinni mbl.is/Golli

„Það hefur nú sjaldan sést annað eins af sætukoppum og núna,“ segir Sveinn Rúnar Hauksson, læknir og berjaáhugamaður. „Auðvitað er aldrei hægt að vera alveg viss; til eru fræ sem aldrei verða blóm! En það lítur vel út með berjasprettuna í ár. Margir sætukoppar eru nú þegar orðnir að eldrauðum berjum sem vonandi ná þeim þroska að verða blá og bústin.“

Gleði og gómsætar máltíðir

Sveinn Rúnar kveðst hafa heyrt frá fólki víðsvegar af landinu og allir séu sammála um að berjaspretta verði með því mesta. „Ég var rétt í þessu að koma úr lynginu á Lyngdalsheiðinni. Sætukopparnir eru komnir skemur af stað þar heldur en t.d. í Borgarfirðinum en hins vegar var mikið af agnarsmáum grænjöxlum á krækiberjalynginu.“

Sveinn Rúnar segist eiga von á að berin verði snemma á ferðinni í ár líkt og í fyrra. „Þetta fer að verða miðsumariðja að fara í berjamó og ég á allt eins von á að geta brugðið mér í berjamó í lok mánaðar allavega til að handtína.“

Ekki er ólíklegt að kreppan ýti við fólki og það sæki meira í berjamó. „Ég hef nú alltaf verið að vonast til að fólk nýtti betur þessar gjafir náttúrunnar. Berin eru þvílík uppspretta gleði og gómsætra máltíða. Í góðu árferði er líka nóg af þeim og maður þarf ekki að fara langt til að komast í gott lyng. Hér í Reykjavík og allt um kring eru gjöfulir berjamóar. Það er nóg fyrir alla.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert