Keppni milli Íslands og Króatíu um að verða 28. aðildarríki ESB

Keppni um að verða 28. aðildarríkið?
Keppni um að verða 28. aðildarríkið? Reuters

Ísland gæti fengið inngöngu í Evrópusambandið á mettíma en það er engin trygging fyrir því að landið fái inngöngu á undan öðru umsóknarlandi, Króatíu, hefur franska fréttastofan AFP eftir embættismönnum og sérfræðingum á þessu sviði.

Í fréttinni er það rakið að Alþingi hafi samþykkt aðildarumsóknina mitt í djúpri efnahagskreppu. Á sama tíma sé aðildarumsókn Króatíu í öngstræti vegna landamæradeilu við nágrannalandið Slóveníu, sem er þegar innan ESB, og deilan geti þannig gert að engu vonir Króatíu um að verða 28. aðildarríkið árið 2011.

Ísland sé þegar aðili að Evrópska efnahagssvæðinu og hafi sem slíkt innleitt megnið af tilskipunum eða löggjöf ESB sem ætti að tryggja hraðara inngönguferli. 

„Ég held að inngangan gæti orðið sú skjótasta í sögunni,“ hefur AFP eftir Amanda  Akcakoca, sérfræðingi í Evrópumálum. „Ísland gæti komist inn með mjög skjótum hætti þar eð það hefur þegar tengst ESB á svo mörgum sviðum, en það veltur á því hversu langan tíma tekur að leysa deiluna milli Króatíu og Slóveníu.“

Fréttastofan segir að embættismenn hjá ESB fallist á að ferlið geti orðið hratt en eru þó varkárir.

„Við vitum ekki hversu langan tíma viðræðurnar við Ísland mun taka, “ segir embættismaður hjá sambandinu með reynslu af stækkunarmálum þess en aðildarríkin hafa næstum því tvöfaldast frá 2004.

Fyrst af öllu verður ríkisstjórnin að sækja um aðild ( sem hún hefur nú þegar gert) til ríkisins sem fer þessa stundina með forsætið, þ.e. til Svíþjóðar. Stjórnvöld þar þurfa síðan að bera málið undir önnur aðildarríki og ef þau samþykkja aðgönguumsóknina, veita framkvæmdastjórninni umboð til að meta umsóknina.

AFP hefur eftir embættismanninum að með „mestri bjartsýni“ geti slíkt plagg legið fyrir árslok. Minnt er einnig á að niðurstaða aðildarviðræðnanna verði síðan að hljóta samþykki á Íslandi í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sérfræðingur á sviði lagaregluverks ESB segir að mál á borð við hvalveiðar og seladráp sem ESB tókst nýlega á við Kanada út af, m.a. með því að beita innflutningsbanni, geti gert stöðu Íslands í viðræðunum erfiðari.

„Mál af þessu tagi geta orðið fyrirferðamikil vegna þess að þeim fylgja miklar tilfinningar á báða bóga. Þeir hafa ekki viljað hætta hvalveiðum,“segir hann. „Svo snýst þetta einnig um seli. Í efnahagslegu tilliti eru þetta smámál en stórmál þegar kemur að tilfinningunum.“

Króatía sem varð aðili að Atlantshafsbandalaginu á árinu, hefur fyrir löngu sett stefnuna á að verða 28. aðildarríki ESB, en deila um smá landspildu á landamærum Króatíu og Slóveníu hefur stöðvað aðildarviðræðurnar og er sögð hafa átt þátt í því að fyrrum forsætisráðherra Króatíu sagði af sér.

AFP segir þó að í Zagreb sjái menn sitthvað jákvætt við aðildarumsókn Íslands.

„Við gætum komist í lokamarkið á nokkurn veginn sama tíma, segjum með fárra mánaða millibili, “ segir embættismaður í króatísku utanríkisþjónustunni. Þetta gæti, segir hann, hafi í för með sér að ESB byði báðum þjóðum inngöngu á sama tíma, eins og hafi verið raunin undanfarið, fremur en með nokkurra mánaða millibili.

„Þetta gæti orðið mjög táknrænt því að Ísland var fyrsta ríki alþjóðasamfélagsins til að viðurkenna sjálfstæði Króatíu 1991, mánuði fyrr en Evrópusambandsríkin,“ segir embættismaðurinn.

Fari svo, segir AFP, þá verður Króatía vissulega 28. aðildarríki ESB - það er á undan Íslandi í stafrófinu, þ.e.a.s. Croatia upp á ensku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert