Viðvarandi skjálftavirkni undir Eyjafjallajökli

Horft úr Fljótshlíð til Eyjafjallajökuls.
Horft úr Fljótshlíð til Eyjafjallajökuls. Mbl.isEinar Falur

Nokkuð viðvarandi jarðskjálftavirkni hefur verið undir Eyjafjallajökli frá því snemma í júní. Fram kemur á vef Veðurstofu Íslands að upptök flestra jarðskjálftanna séu á um 10 km dýpi og stærstu skjálftarnir hafi mælst um 2 á Richter.

Þá segir að líklegt megi telja að orsök jarðskjálftanna sé kvikuinnskot, svipað þeim sem urðu á árunum 1994 og 1999.

Verið að að vinna í því að fá gervihnattarmyndir af svæðinu til að sannreyna að svo sé en innskotin á árunum 1994 og 1999 sáust greinilega á slíkum myndum. Ekki er þó von á að niðurstaða úr skoðun slíkra mynda liggi fyrir fyrr en síðar í sumar eða haust.

Eyjafjallajökull er eldfjall sem síðast gaus árið 1821 en samkvæmt upplýsingum jarðskjálftafræðings Veðurstofunnar eru ekki sterkar vísbendingar um að gos sé í vændum á svæðinu. Mun algengara er að kvikuinnskot valdi skjálftavirkni í einhvern tíma sem deyi síðan smám saman út.  

Sjálfvirkar GPS-landmælingar við Þorvaldseyri sýna færslu til suðurs sem nemur um 1 cm frá byrjun júní. Til samanburðar námu færslur á nálægum mælipunkti um 13 cm í kvikuinnskotinu sem varð árið 1999, samkvæmt mælingum Norræna eldfjallasetursins.

Búast má við áframhaldandi smáskjálftavirkni undir Eyjafjallajökli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert