Samráð verður víðtækt

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra mbl.is/Ómar

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra væntir þess fastlega að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu (ESB) verði rædd á fundi ráðherraráðs ESB hinn 27. júlí næstkomandi. Guðmundur Árni Stefánsson sendiherra afhenti umsóknina í Stokkhólmi í gær.

Össur kvaðst hafa talað við Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, en Svíar fara nú með formennsku í ESB. „Það var ekki annað að heyra á honum en að svo yrði,“ sagði Össur. „En ég veit hins vegar að við erum á síðasta snúningi hvað tímann varðar.“

Ríkisstjórnin mun skipa faglega viðræðunefnd við ESB á næstu vikum. Hverjir verða í nefndinni?

„Ég hef hugleitt margt í þeim efnum. Það er þó hægt að slá því föstu að í henni verða ekki virkir stjórnmálamenn,“ sagði Össur. „Í henni verða t.d. formenn starfshópa um ýmsa málaflokka sem þarf að huga sérstaklega að. Að auki verður skipaður aðalsamningamaður og hugsanlega einhverjir með honum. Þetta gæti orðið innan við 15 manns.“

Össur taldi að starfshóparnir sem fjalla munu um hina ýmsu málaflokka geti orðið um tíu talsins. Þeir geti verið misjafnlega stórir eftir eðli viðfangsefnanna. Össur nefndi til dæmis hóp um sjávarútvegsmál.

„Þar mun ég freista þess að fá fulltrúa frá hinum ýmsu greinum sjávarútvegsins til að sitja og koma sínum viðhorfum á framfæri. Líka þeim sem kunna að vera á móti þessu ferli. Það er í þágu greinarinnar og okkar hagsmuna að öll sjónarmið komi fram.“ Össur kvaðst hafa einsett sér að hafa sterkt samráð við fulltrúa hagsmunasamtaka sem telja sig þetta mál einhverju varða. Í því sambandi nefndi hann t.d. þau samtök sem utanríkismálanefnd Alþingis leitaði álits hjá.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert