Sveitarfélög á leið í gjörgæslu

Rekstur A-hluta Reykjavíkurborgar skilaði rúmlega tveggja milljarða afgangi en rúmlega …
Rekstur A-hluta Reykjavíkurborgar skilaði rúmlega tveggja milljarða afgangi en rúmlega 71,5 milljarða halli var af rekstri samstæðu Reykjavíkurborgar árið 2008. mbl.is/Rax

Tíu til fimmtán sveitarfélög verða á næstunni tekin til sérstakrar skoðunar af eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Nefndin hefur á síðustu 12 mánuðum gert einn samning um eftirlitsaðgerðir, en það er við Bolungarvíkurkaupstað.

Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins spurði Kristján L. Möller, samgönguráðherra um afkomu sveitarfélaga og horfur. Í svarinu kemur fram að afkoma sveitarfélaga landsins var neikvæðu um samtals tæplega 109,5 milljarða króna. Ef aðeins er litið á afkomu sveitarsjóða nam tapið tæplega 19,3 milljörðum árið 2008.

Þar vega þungt fjármagnsgjöld en þau námu samtals 133,5 milljörðum króna, þar af tæplega 17 milljörðum hjá sveitarsjóðum eða A-hluta sveitarfélaganna.

Tap af rekstri bæjarsjóðs Kópavogs, svokölluðum A-hluta, nam 8,2 milljörðum króna árið 2008 en rekstrarniðurstaða sjö sveitarsjóða var neikvæð um einn milljarð króna eða meira í fyrra. Þetta eru auk Kópavogs, Hafnarfjarðarkaupstaður (- 2,13 milljarðar), Reykjanesbær (-3,05 milljarðar), Akraneskaupstaður (-1,19 milljarðar), Akureyrarkaupstaður (-2,15 milljarðar), Fjarðabyggð (-1,14 milljarðar) og Sveitarfélagið Árborg (- 1,2 milljarðar).

Skuldirnar rúmir 445 milljarðar króna

Heildarskuldir sveitarfélaganna námu í lok ársins 2008 rúmlega 445 milljörðum króna, höfðu aukist úr rúmlega 256 milljörðum króna miðað við loka ársins 2007. Skuldaukningin nemur rúmlega 73%.

Skuldir sveitarsjóðanna eða A-hluta sveitarfélaga námu í árslok 2008 154,5 milljörðum, borið saman við rúmlega 98 milljarða króna í lok árs 2007. Þar er aukningin rúmlega 57%.

Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um hlutfall erlendra skulda sveitarfélaganna. Samkvæmt áætlun sem samgönguráðuneytið vann í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga má ætla að heildarskuldir sveitarsjóðanna í erlendri mynt séu um 65,3 milljarðar króna.

Í svari samgönguráðherra kemur fram að ekki liggja fyrir upplýsingar um áætlaða afkomu sveitarfélaga frá 1. janúar til 1. maí 2009. Samstarf hefur verið milli ráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Hagstofu Íslands um mánaðarlega söfnun upplýsinga um fjárhagslega framvindu einstakra sveitarfélaga. Tilgangurinn er að geta fylgst vel með stöðu sveitarfélaganna og hvert stefnir í fjármálum þeirra og hófst samstarf þetta í kjölfar efnahagshrunsins í haust. Vel gekk framan af að safna upplýsingum frá sveitarfélögum en það sem af er þessu ári hafa skil verið afar dræm. Samgönguráðuneytið mun í samstarfi við sambandið og Hagstofuna meta leiðir til að tryggja greiðari skil samtímaupplýsinga um fjármál sveitarfélaganna.

10 til 15 sveitarfélög á leið í gjörgæslu

Birkir Jón Jónsson spurði samgönguráðherra um hversu mörg sveitarfélög væru til sérstakar athugunar hjá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga vegna erfiðrar fjárhagsstöðu. í svarinu kemur fram að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur á síðustu 12 mánuðum gert einn samning um eftirlitsaðgerðir, en það er við Bolungarvíkurkaupstað.

Þá hefur nefndin á síðustu mánuðina unnið að greiningu á fjárhagsáætlunum sveitarsjóðanna og hefur jafnframt, nú þegar ársreikningar sveitarfélaga vegna ársins 2008 liggja fyrir, metið þörf fyrir frekari eftirlitsaðgerðir.

Samkvæmt frumathugun á fjárhagsáætlunum og ársreikningum munu 10–15 sveitarfélög verða tekin til frekari skoðunar. Nákvæmari upplýsingar munu liggja fyrir að lokinni yfirferð ársreikninga allra sveitarfélaga.

Svar samgönguráðherra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert