Össur: „Diplómatískur sigur“

„Ég er auðvitað ákaflega glaður og hamingjusamur með það að utanríkisráðherrarnir skuli hafa afgreitt þetta í dag. Það er diplómatískur sigur fyrir okkur Íslendinga. Það var ekki sjálfgefið,“ segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra varðandi aðildarumsókn Íslands, sem hefur verið vísað til framkvæmdastjórnar ESB.

Össur segir að það sé ekki hægt að halda því fram að verið sé að hraða umsóknarferlinu heldur sé verið að meta stöðu Íslands miðað við þátttöku Íslendinga í Evrópuferlinu. Í gegnum EES-samninginn og Schengen-samkomulagið hafi Ísland tekið upp 65-70% af regluverki ESB, og það hafi áhrif.

Mikil undirbúningsvinna hefst nú í framhaldinu. Össur segir að næsta skref í utanríkisráðuneytinu sé að skipa samninganefnd Íslands gagnvart ESB. Það verði gert á næstu vikum. 

Framkvæmdastjórn ESB mun svo meta stöðu Íslands og hæfni sem umsóknarþjóðar. Össur segir að íslensk stjórnvöld vonist til þess að matinu verði lokið í lok nóvember.

Þá verði til „50-60 blaðsíðna skýrsla frá framkvæmdastjórninni, sem er þá send á leiðtogafundinn sem verður fyrrihluta desember. Ég vænti þess, miðað við viðtökurnar til þessa og í dag, að sú ákvörðun verði jákvæð, og við tekin formlega inn í umsóknarferlið,“ segir Össur.

Í framhaldinu hefjist ríkjaráðstefna í, vonandi í febrúar að sögn Össurar, þar sem lagður verði ramminn að viðræðunum. „Síðan fer þetta af stað, kafla fyrir kafla. Að lokum stöndum við uppi með samning sem við komum með hingað heim og verður lagður fyrir þjóðina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert