Ríkisstjórn á suðupunkti

Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, átti einkafund með formönnum stjórnarflokkanna í morgun áður en ríkisstjórnarfundur hófst.  Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, segir að staðan innan ríkisstjórnarinnar gæti verið betri en hann voni að ríkisstjórnin springi ekki vegna málsins. Málið sé þungt og snúið.

Ögmundur segir ljóst að fyrirvaralaus fari samningurinn ekki í gegn. Hann neitar því að líf ríkisstjórnarinnar hangi á hans atkvæði. Þeir félagarnir Ögmundur og Össur eru ekki sammála um hversu afdrifaríkt málið geti orðið fyrir ríkisstjórnina.

Ögmundur óttast ekki að ríkisstjórnin sé að springa. Hún hafi ekki verið mynduð um tiltekna niðurstöðu í Icesave-málinu heldur til að standa vörð um íslenskt velferðarsamfélag. Líf hennar hangi ekki á hans atkvæði, það séu 63 þingmenn á Alþingi og þar gildi einn maður - eitt atvæði. Hvorki þingið eða þjóðin hafi efni á því að klofna í afstöðu til skuldbindinga af þessari stærðargráðu.

Össur segir að ríkisstjórn sem er með jafn stórt og umsvifamikið mál þurfi að skoða sína stöðu ef þingið telji að henni hafi mistekist í málinu. Það sé ekkert flóknara en það; það sé bara lögmálið.

Hann segist vera í stöðugum samskiptum við Breta og Hollendinga um óánægju íslenskra þingmanna með samninginn. Þeir séu algerlega upplýstir og hann hafi ekkert undan dregið. Hann hafi rætt við allt að 25 utanríkisráðherra Evrópusambandsríkjanna á undanförnum vikum. Í þeirra samtölum hafi þetta mál komið upp og hann hafi gert þeim grein fyrir óánægjunni og því að staða málsins hafi þyngst. Íslendingar telji að þetta séu þröngir, erfiðir og ranglátir samningar, Það sé stemmningin á Alþingi Íslendinga þar sem málið sé til meðferðar. Þá hafi komið fram að ekkert hafi skort á að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi gert það sem þeir geta til að koma samningnum í gegn vegna þess að þeir trúi því að það sé það rétta þegar horft sé til framtíðarhagsmuna þjóðarinnar. Hann hafi hinsvegar líka sagt þeim það að þetta geti farið allavega. Það sé fullkomin fjarstæða að þeim hafi ekki verið haldið upplýstum um stöðu málsins.

Össur sagði að það hefði alvarleg áhrif fyrir landið að fella samninginn. Fórnarkostnaðurinn yrði talsvert meiri þegar upp væri staðið heldur kostnaður vegna samningsins. Þá sé samningur við Evrópusambandið. sem felist í svokölluðum Brussel - viðmiðum um að aðstoða Íslendinga síðar í þessu ferli. Hann segist þegar hafa rætt þennan samning við ESB og það séu engin vanbrögð á því að sambandið beiti sér eins og þar hafi verið lagt upp með.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert