Íslendingar svartsýnni en aðrar þjóðir

Frá útifundi á Austurvelli vegna efnahagskreppunnar.
Frá útifundi á Austurvelli vegna efnahagskreppunnar. mbl.is/Kristinn

Íslendingar eru mun svartsýnni en aðrar þjóðir varðandi efnahagsástandið á næstu mánuðum. Í júní taldi mikill meirihluti Íslendinga, að efnahagsástandið myndi enn versna á næstu þremur mánuðunum þar á eftir og dregið hefur úr trú á að stjórnvöldum takist að leysa vandann.

Þetta kemur fram í alþjóðlegri könnun um áhrif fjármálakreppunar á almenning, sem WIN (alþjóðleg samtök óháðra markaðsrannsóknarfyrirtækja) stóð fyrir og gerði nú í þriðja sinn í 22 löndum. Capacent sá um framkvæmd könnunarinnar hér á landi.

Í júní taldi 71% Íslendinga að efnahagsástandið muni enn versna á næstu 3 mánuðum. Næst á eftir Íslendingum í svartsýni komu Þjóðverjar en 46% þeirra töldu að efnahagsástandið fari versnandi

Capacent segir, að af könnuninni í heild sjáist að í 20 löndum af 22 hafi dregið úr svartsýni þar sem töluvert færri nú töldu að efnahagsástandið myndi versna en fyrir 3 mánuðum. Flestir áttu von á því að efnahagsástandið myndi standa í stað. Ísland og Brasilía voru einu þátttökuþjóðirnar þar sem ekki fækkaði í hópi þeirra sem töldu að ástandið myndi versna.

Í síðustu könnun var Ísland eitt af einungis þremur löndum þar sem aukið traust mældist til ríkisstjórnar um að ná tökum á efnahagsvandanum, það hefur nú breyst og mældist traust til ríkisstjórnarinnar minna en í síðustu könnun.

Búast við tekjusamdrætti

Íslendingar telja einnig frekar en aðrar þjóðir að fjölskyldutekjur þeirra muni lækka á næstu mánuðum, en 59% töldu að þær myndu fara lækkandi og er það aukning frá 55% í síðustu könnun sem gerð var í mars síðastliðnum. Næst á eftir Íslendingum telja 49% Japana að fjölskyldutekjur þeirra muni lækka en hlutfall japanskra þáttakenda sem það telja hefur ekki hækkað, ólíkt því sem sést hér á landi.

Könnuð voru sálfræðileg áhrif kreppunnar og spurt um svefn, streitu, kvíða og depurð sem afleiðingu efnahagsástandins. 40% allra þátttakenda í löndunum 22 töldu sig hafa upplifað streitu eða kvíða vegna efnahagsástandsins og 18% að þeir hefðu fundið fyrir depurð. 67% Íslendinga höfðu upplifað að minnsta kosti eitt ofangreindra atriða, en á heildina litið höfðu 54% allra þátttakenda upplifað að minnsta kosti eitt atriði. 

Þátttakendur voru einnig spurðir að því nú eins og áður hversu vel eða illa þeir treystu því að ríkisstjórn viðkomandi lands nái stjórn á efnahagsvandanum, á kvarðanum 1-10 þar sem 1 þýddi að þeir treystu því alls ekki og 10 að þeir treystu því fullkomlega. Á heimsvísu var meðaleinkunnin 4,8 af 10, sem er sama meðaleinkunn og mældist í síðustu könnun. Meðaleinkunn Íslendinga er nú 4 af 10. Í desember 2009 var meðaleinkunnin 4,4 af 10, en hækkaði í 4,6 í mars 2009. Ísland var þá eitt af þremur löndum þar sem ekki dró úr trausti.

Minnsta traust til ríkisstjórnar mældist í Bretlandi og Japan en í báðum löndunum var einkunnin 3,3 af 10.

Íslensk heimili enn líklegust til að búast við tekjusamdrætti

Í desember 2009 taldi helmingur Íslendinga að fjölskyldutekjur þeirra myndu minnka á næstu 12 mánuðum, í mars 2009 voru 55% sem töldu að þær myndu minnka en nú eru það 59% íbúa sem telja að þær muni minnka, 31% töldu að þær muni standa í stað en einungis 7% að þær muni aukast. Íslendingar eru svartsýnastir hvað varðar fjölskyldutekjur á næstu 12 mánuðum eins og í síðustu könnun.

Þátttakendur voru einnig spurðir um hvort þeir hefðu frá upphafi efnahagskreppunar minnkað útgjöld sín í 10 flokkum af vöru og þjónustu. 48% Íslendinga sögðust hafa minnkað sín útgjöld og hefur lítlil breyting orðið á því síðan í mars 2009. Mest höfðu Íslendingar dregið saman í útgjöldum í frí og ferðalög (74%), kaup á stórum heimilistækjum (74%), í fatnaði og matvælum (70%) en minnst í útgjöldum til Internettenginga á heimilum.

Kreppan hefur sálfræðileg áhrif

Íslendingar eru að meðaltali líklegri en aðrir til að hafa fundið fyrir streitu, kvíða, ófullnægjandi svefni eða depurð vegna efnahagsástandins. Að meðaltali sögðust 54% þátttakenda í löndunum 22 hafa fundið fyrir að minnsta kosti einu einkenni sem afleiðingu kreppunnar.

Á Íslandi töldu 63% þátttakenda sig hafa fundið fyrir að minnsta kosti einu einkenni, 45% Íslendinga hafa fundið fyrir streitu, 49% kvíða, 38% depurð en einungis 19% töldu sig hafa sofið verr sem afleiðingu af efnahagsástandinu. Íbúar í Líbanon (79%), Mexikó (76%), Bandaríkjunum (74%) og Kóreu (72%) voru líklegastir til að hafa fundið fyrir að minnsta kosti einu af einkennunum fjórum sem afleiðingu efnahagskreppunar.

Ef horft er til allra þátttakenda í könnuninni kemur í ljós að 39% að meðaltali höfðu ekki fundið fyrir neinum einkennum og 32% Íslendinga töldu sig ekki hafa fundið fyrir neinum einkennum.

Niðurstöðurnar sem hér birtust eru úr netkönnun sem Capacent Gallup gerði dagana 17.–25. júní 2009. Í úrtakinu voru 1277 manns á öllu landinu, 16 ára og eldri. Svarhlutfall var 60,6%. Löndin sem mæld voru í könnuninni voru eftirfarandi: Argentína, Ástralía, Austurríki, Brasilía, Kanada, Kína, Frakkland, Þýskaland, Ísland, Indland, Ítalía, Japan, Kórea, Líbanon, Mexikó, Holland, Rússland, Saudi Arabía, Spánn, Sviss, Bretland og Bandaríkin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert