Fréttaskýring: Aukin óvissa og langtímaatvinnuleysi

mbl.is/Ómar

Mæling Vinnumálastofnunar í júlí jafngildir því að nærri 14 þúsund manns hafi að jafnaði verið atvinnulaus í þeim mánuði. Fækkaði atvinnulausum að meðaltali um 335 manns síðan í júní. Hins vegar eykst langtímaatvinnuleysi hratt og vekur ASÍ athygli á því að þeir sem hafa verið á atvinnuleysisskrá lengur en í sex mánuði eru núna um helmingur atvinnulausra, eða ríflega 7.000 manns. Síðan í febrúar á þessu ári hefur langtímaatvinnulausum fjölgað um nærri 6.000, eða úr 10% allra atvinnulausra í um 50% í júlí sl.

Í mánaðarskýrslu Vinnumálastofnunar segir m.a. að yfirleitt batni atvinnuástandið frá júlí til ágúst, m.a. vegna árstíðasveiflu, en erfitt sé að áætla atvinnuleysi um þessar mundir vegna mikillar óvissu í efnahagslífinu. Er talið líklegt að atvinnuleysið verði á bilinu 7,6-8,1% í ágúst en í sama mánuði í fyrra mældist það 1,2%.

Atvinnuleysið mælist mest á Suðurnesjum, eða 11,7%, en minnst á Vestfjörðum, 1,3%. Frá því í júní hefur staðan á vinnumarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu lítið breyst en á landsbyggðinni minnkaði atvinnuleysið um 6%.

Kallað eftir fjárfestingum

Sem fyrr segir ríkir mikil óvissa um horfur á vinnumarkaðnum. Engu að síður reiknar Seðlabankinn með að atvinnuleysi í ár verði minna en reiknað var með í síðustu spá í maí. Er skýringa m.a. leitað til aukins eftirlits Vinnumálastofnunar með atvinnuleysisskráningum. Í nýjustu Peningamálum bankans segir að vegna aukins samdráttar á næstu tveimur árum verði atvinnuleysi svipað á seinni hluta spátímans, sem nær til fyrri hluta ársins 2012.

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir ljóst að atvinnuleysi muni aukast á næstu mánuðum, eftir ágæta innspýtingu í atvinnulífið í sumar með aukinni ferðaþjónustu og ferðalögum Íslendinga innanlands. Hins vegar sé ljóst að engin fyrirtæki séu að fjárfesta að ráði og framundan sé töluverð endurskipulagning í atvinnulífinu þegar bankarnir fara að vinna á eðlilegum grundvelli.

„Samtök atvinnulífsins hafa kallað eftir ákvörðunum hjá stjórnvöldum um ný fjárfestingarverkefni, sem er hluti af stöðugleikasáttmálanum. Það þarf að fara að virkja og koma stórum framkvæmdum í gang sem skapa atvinnu,“ segir Hannes en SA binda vonir við að lífeyrissjóðir komi að fjármögnun nokkurra verkefna í vega- og mannvirkjagerð. „Það er mikið undir okkur sjálfum komið hversu djúp lægðin verður.“

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, tekur undir með Hannesi og segir óvissuna mikla. Fyrirtæki haldi að sér höndum og mörg hver séu ekki með nein verkefni.

„Það er ótti upp um stórt högg í haust og fyrri part vetrar,“ segir Halldór og vitnar til hagspár ASÍ sem reiknar með þungum vetri. Ekki fari að rofa til fyrr en endurfjármögnun bankanna lýkur, Icesave-samningar verði kláraðir og ákvarðanir teknar um nýjar fjárfestingar. „Við þurfum að fara að sjá til sólar svo einhver uppbygging geti farið í gang.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert