Hrefnustofninn að braggast eftir nokkur mögur ár

mbl.is/Jim Smart

Vísbendingar úr talningu í sumar á hrefnu á landgrunninu benda eindregið til að hrefnum hafi aftur fjölgað verulega. Í talningu 2007 kom í ljós að hrefnu hafði fækkað stórlega á landgrunninu frá árinu 2001.

Talningu á hrefnu er nýlokið og liggja niðurstöður ekki fyrir. Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur á Hafrannsóknastofnun, segir að greinilega sé talsvert meira af hrefnu á landgrunninu en var árið 2007. Hins vegar sé það ekki jafnmikið og kom út úr mælingum árið 2001.

Samkvæmt talningunni 2001 voru hrefnur við landið taldar 43.600, en aðeins 10-15 þúsund árið 2007. Öryggisfrávik eru veruleg hvað þessar tölur varðar. Við könnun í Faxaflóa síðasta sumar, sem er eitt þéttsetnasta hrefnusvæðið, þótti ljóst að hrefnu var farið að fjölga aftur á landgrunninu.

„Samfara vísindaveiðum á hrefnu árin 2003 til 2007 voru gerðar miklar rannsóknir á stofninum,“ segir Gísli. „Fækkun hrefnu var mikil á landgrunnssvæðinu árið 2007 og hugsanlega árin á undan. Við vildum tengja þessa fækkun erfiðum fæðuskilyrðum á landgrunnninu, en á þessum tíma bárust fréttir um afkomubrest hjá sjófuglum. Sandsíli hafði brugðist árin á undan og á þessum tíma vorum við einmitt að fá niðurstöður úr fæðurannsóknum hrefnu, sem sýna hversu mikilvægt sandsílið er hrefnunni á þéttasta svæðinu sunnan- og vestanlands,“ segir Gísli. Hann segir að fæðuvalið sé mismunandi eftir landsvæðum og geti verið allt frá litlum sílum upp í boldungsþorsk.

Ekki liggi fyrir upplýsingar um hvar hrefnan hélt sig meðan fæðuskilyrðin voru erfið hér við land. Skilyrði hafi verið erfið til talningar úr skipum á sumum veigamiklum svæðum árið 2007, en reynt hafi verið að telja hrefnu allt að ströndum Grænlands og norður til Jan Mayen. Ýmsar breytingar hafi orið á lífríki sjávar á síðustu árum og ekki sé ólíklegt að hrefnan hafi fært sig norðar til að afla fæðu. Ekki sé talið líklegt að hrun hafi orðið í hrefnustofninum.

Hjá Hafrannsóknastofnun er verið að vinna úr rannsóknum sem gerðar voru á hrefnu 2003-2007. Niðurstöðurnar verða kynntar fyrir Alþjóðahvalveiðiráðinu innan tveggja ára. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert