Á smábílum yfir hálendið

mbl.is/Ómar

„Þetta er með ólíkindum,“ segir Björgvin Njáll Ingólfsson, framkvæmdastjóri bílaleigunnar Hertz. Liðsmenn björgunarsveitanna sem í sumar hafa verið við gæslustörf á hálendinu hafa meðal annars fylgst með umferð lítilla bílaleigubíla þar.

Samkvæmt samningum sem viðskiptavinir bílaleiga undirrita er þeim óheimilt að fara upp um fjöll og firnindi. Sumir, einkum erlendir viðskiptavinir, gefa þó lítið fyrir loforð um slíkt og í sumar hafa björgunarsveitarmenn tekið myndir af alls fimmtíu smábílum frá Hertz á hálendinu.

„Þetta er mikið vandamál,“ segir Björgvin Njáll. „Björgunarsveitarmenn taka myndir af bílunum á svæðum sem óheimilt er að fara um ásamt því sem nákvæm staðsetning er skráð. Þessi vinnubrögð hafa gefið góða raun; það er erfitt fyrir viðskiptavinina að neita nokkru þegar myndir eru til staðar.“

Björgvin segir tilganginn með þessu fyrst og fremst fyrirbyggjandi. Öllum megi vera ljóst að smábílar eins og Toyota Yaris henti ekki í ferðir yfir Sprengisand, Kjöl, í Landmannalaugar eða um Þórsmerkurleið að jökulánum þar.

„Á grófum malarvegum er alltaf hætta á skemmdum, svo sem á pústkerfi, dekkjum og slíku. Þá er vatnstjón eða skemmdir á undirvagni á hálendisvegum ekki bætt af tryggingafélögum. Leigutakinn er ábyrgur, hvort sem bíllinn er lítill eða stór. Stundum hefur það gerst að þeir sem koma á skemmdum bíl í bæinn skilja þá eftir í Leifsstöð og lauma lyklunum í póstkassann okkar þar. Loka greiðslukorti sínu áður en tjónið uppgötvast og koma sér úr landi. Þá sitjum við stundum uppi með skaðann, en tjón okkar vegna svona mála er 40 til 50 milljónir króna á ári,“ segir Björgvin Njáll.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert