Gegn hagsmunum Íslands

Kristján Þór Júlíusson og Ásbjörn Óttarsson, sem hér sjást fá …
Kristján Þór Júlíusson og Ásbjörn Óttarsson, sem hér sjást fá sér ís milli funda, sitja í fjárlaganefnd fyrir Sjálfstæðisflokkinn. mbl.is/Heiðar

Afar hörð gagnrýni á Icesave-lánasamningana við Breta og Hollendinga kemur fram í drögum að framhaldsnefndaráliti fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd um frumvarp um ríkisábyrgð vegna samningana. Segir þar m.a. að fjölmörg ákvæði í samningunum stríði með alvarlegum hætti gegn hagsmunum íslenska ríkisins og skaði samnings- og réttarstöðu þjóðarinnar til framtíðar. 

Segja sjálfstæðismenn m.a. að það sé fáheyrt, að ríkisstjórn sjálfstæðs og fullvalda ríkis skuli afsala sinni eigin þjóð jafn mikilsverðum og sjálfsögðum rétti eins og íslenska ríkisstjórnin hefur gert með undirritun sinni undir lánasamningana við Bretland og Holland.  

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins segjast fyrst og fremst hafa haft það að markmiði í vinnunni í fjárlaganefnd, að reyna að takmarka það tjón sem upphaflegt frumvarp ríkisstjórnarinnar hefði valdið íslenska ríkinu og íslensku þjóðinni.  Það markmið hafi að miklu leyti náðst og breytingartillögur, sem gerðar hafi verið við frumvarpið hafi átt verulegan þátt í því að forða Íslandi frá þeim gríðarlega skaða sem hlotist hefði af upphaflegu frumvarpi. 

Eftir standi engu að síður ákvæði lánasamninganna, sem stríði svo augljóslega gegn hagsmunum Íslands, að á þau verði ekki fallist.

Nefndarálitið verður lagt fram á Alþingi í fyrramálið en þriðja og síðasta umræða um frumvarpið hefst klukkan 10:30. Gera má ráð fyrir að frumvarpið verði að lögum á föstudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert