Vestmannaeyjar án sjósamgangna

Breiðafjarðarferjan Baldur.
Breiðafjarðarferjan Baldur. bb.is

„Við vöruðum við þessu,“ sagði Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. Sjólag hefur hamlað ferjunni Baldri frá því að halda áætlun milli lands og Eyja síðdegis í gær og í morgun. „Við vöruðum við því að þessi staða kæmi upp ef hingað kæmi skip sem ekki hefur fulla haffærni.“

Ferjan Baldur sigldi ekki síðari áætlunarferðina í gær milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar og ekki heldur þá fyrri í dag. Skipið má ekki sigla farið ölduhæð yfir 3,5 metra á Surtseyjardufli. Elliði sagði að veðurspáin fyrir næstu daga gefi ekki góðar vonir um að skipið geti haldið uppi áætlun.

Elliði sagði að siglingaleiðin milli lands og Eyja sé erfið. Hún taki um þrjár klukkustundir og liggi yfir opið haf. Hann sagði að Herjólfur sé mjög gott sjóskip. Þegar hann fari í slipp þurfi Eyjamenn að fá annað sambærilegt skip í staðinn. Hann sagði mjög miður að ekki skuli hafa verið orðið við óskum um það.

„Það er bagalegt hve oft við lendum í því að ákvarðanir séu teknar um hagsmuni Vestmannaeyja án þess að hlustað sé á sjónarmið okkar,“ sagði Elliði. Hann hafði heyrt frá farþegum sem fóru á milli í gær að ferðin hafi ekki verið skemmtileg.

Elliði taldi að búast mætti við að vöruskortur gerði vart við sig ef ferðir Baldurs féllu niður í tvo daga. Þá yrðii þrautarlendingin að fá vörur sendar með flutningaskipi sem hefur viðkomu í Vestmannaeyjum á fimmtudag. 

Elliði sagði það gilda um áhafnir Baldurs og Herjólfs að þær séu vanar og þjónustan góð um borð. „Það er eðal starfsfólk á þessum skipum og vant, en það er til lítils ef skipið liggur bundið við bryggju.“

Á undanförnum árum var ferjan St. Ola frá Eistlandi leigð til að leysa Herjólf af. Elliði kvaðst hafa orð samgönguráðuneytisins fyrir því að ekki hafi verið hægt að leigja hana nú. Hann sagði menn hafa verið ærlega og viðurkennt að málið snúist um peningaleg útgjöld. 

„Auðvitað er það ódýrast þegar eru engar samgöngur. En hér erum við með 4.100 manna samfélag, eitt stærsta sveitarfélag á landinu. Það lamast algjörlega þegar samgöngur falla niður,“ sagði Elliði. 

„Hér eru 4.100 manns sem eru mjög ósáttir við þessa ákvörðun og einangraðir.“ Hann kvaðst hafa orðið var við mikla óánægju og reiði meðal fólks vegna þess að ferjuferðirnar falla niður.

Flogið hefur verið milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja í dag og einnig milli Bakka í Landeyjum og Vestmannaeyja. 

Elliði Vignisson bæjarstjóri.
Elliði Vignisson bæjarstjóri. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert