Ríkisskattstjóri biðst afsökunar

Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri og Jón Jósef Bjarnason, handsala sættir …
Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri og Jón Jósef Bjarnason, handsala sættir sínar í gærkvöldi. Mynd Lára Hanna Einarsdóttir

Lára Hanna Einarsdóttir segir á bloggi sínu í dag, frá því að sættir hafi tekist milli Ríkisskattstjóra, Skúla Eggerts Þórðarsonar og Jón Jósefs Bjarnasonar, forsvarsmanns IT ráðgjafar og hugbúnaðarþjónustu, fyrir tilstilli hóps fólks sem vinni að auknu gagnsæi upplýsinga.

Hópurinn hafi fengið Skúla á fund með sér og Jóni Jósef og þar hafi Skúli útskýrt hvers vegna lokað hafi verið fyrir aðgang Jóns Jósefs að fyrirtækjaskrá.

Hún segir Skúla hafa beðið Jón Jósef afsökunar á ummælum sínum í fyrri tilkynningu og áréttað að Jón Jósef hefði hvorki brotið lög né reglur. Skúli og Jón Jósef hafi síðan handsalað sættir.

Persónuvernd úrskurðaði á föstudag að að vinnsla IT ráðgjafar- og hugbúnaðarþjónustu, sem hefur unnið að hugbúnaði sem sýnir tengsl einstaklinga og fyrirtækja, væri ekki leyfisskyld, miðað við þær upplýsingar sem koma fram um vinnsluna í umsókn fyrirtækisins. Hins vegar væri það Ríkisskattstjóra að úrskurða um aðgang að þeim upplýsingum. Eftir að úrskurður Persónuverndar var birtur sendi Ríkisskattstjóri frá sér tilkynningu þar sem hann sagði ekkert því til fyrirstöðu að forráðamaður IT ráðgjafar og hugbúnaðarþjónustu fengi aðgang að gagnagrunni fyrirtækjaskrár, í ljósi úrskurðarins.

Ríkisskattstjóri hafði áður sent frá sér tilkynningu þar sem kom fram að IT hafi ekki haft starfsleyfi frá Persónuvernd þegar gerður var samningur um miðlun upplýsinga úr hlutafélagaskrá. Lokað hafi verið fyrir aðgang IT ráðgjafar þegar það hafi komið í ljós. Þá hafi ekki verið hægt að sjá annað en að forráðamaðurinn hafi sem fyrrum starfsmaður Ríkisskattstjóra nýtt sér upplýsingar án heimildar og sá þáttur sé nú til meðferðar. Ríkisskattstjóri hefur nú beðið afsökunar á þeim ummælum sínum eins og fyrr segir.

Blogg Láru Hönnu er að finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert