Rússalán innan seilingar

Rauða torgið í Moskvu.
Rauða torgið í Moskvu.

„Fyrir ári gekk það ekki eftir, en nú biðja íslensk stjórnvöld um lægra lán og ég veit að sérfræðingar okkar eru með það til skoðunar. Annað veit ég ekki," segir Victor I.  Tatarintsev, sendiherra Rússlands á Íslandi, í viðtali við Austurgluggann, en hann var á ferðalagi um Austurland nýverið. 

Skömmu eftir bankahrunið varð uppi fótur og fit þegar að Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri, lét þau orð falla í frægu Kastljósviðtali að Rússar hefðu boðist til að lána Íslendingum milljarða evra.

Davíð dró þau ummæli síðan til baka.

Ef marka má ummæli Tatarintsevs í viðtalinu eru Rússar boðnir og búnir til að greiða götu Íslendinga.

„Við munum aðstoða Íslendinga. Eina vandamálið er að ákveðnir íslenskir stjórnmálamenn hafa verið tortryggnir í garð Rússa og viljað meina að við vildum aðstoða fjárhagslega til að fá afnot af Keflavíkurflugvelli eða nota okkur landið á annan hátt í pólitískum tilgangi.

Að við myndum lána ykkur, en taka miklu meira í staðinn. Mér finnst hreinlega grátbroslegt að heyra meinta frjálslynda stjórnmálamenn á Íslandi tala svona. Þetta er fortíð.“

Þessi orð sendiherrans hljóta að vekja athygli en skammt er síðan Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, færði rök fyrir því að Bandaríkin hefðu gert mikil mistök með því að loka herstöðinni 2006 um leið og hann vísaði til aukins áhuga Rússa á Íslandi.

Viðtalið við Björn, Rússalán mun hafa heimspólitísk áhrif, birtist á vef Netvarpsins en það má nálgast hér.

Victor I. Tatarintsev, sendiherra Rússlands á Íslandi.
Victor I. Tatarintsev, sendiherra Rússlands á Íslandi.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert