Stutt dómhald í skattamáli

Dómhald í máli ríkislögreglustjóra gegn Baugi, Gaumi, Jóni Ásgeir Jóhannessyni, Kristínu Jóhannesdóttur og Tryggva Jónssyni, var stutt í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Verjendur lögðu sameiginlega fram bókun þar sem gerð var athugasemd við þau gögn, sem ákæruvaldið hefur lagt fram.

Gera verjendurnir kröfu um að bætt verði úr þeim annmörkum sem þeir telja þar vera.

Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota, fékk frest til 22. október til að skila svari við bókuninni og mun Pétur Guðgeirsson, héraðsdómari, í kjölfarið úrskurða í því því máli.

Stefnt er að því að aðalmeðferð málsins fari fram í byrjun nóvember en það kann þó að frestast.

Þau Jón Ásgeir, Kristín, Tryggvi, Baugur og Gaumur, eru ákærð fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum á árunum 1998 til 2003. Jón Ásgeir og Kristín eru ásamt foreldum sínum eigendur Gaums sem var aðaleigandi Baugs Group en það félag er nú til gjaldþrotaskipta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert