47% skattur á launatekjur?

Verið er að ræða hugmyndir í stjórnkerfinu um þriggja þrepa skatta á launatekjur. Fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins, að gert sé ráð fyrir því að skattur á lægstu tekjur lækki lítillega en að tekjuskattur á 500 þúsund króna tekjur og hærri verði rúmlega 47% en hann er rúmlega 37% nú.

Breytingarnar eiga að skila ríkissjóði tugi milljarða í auknar tekjur á næsta ári. Að sögn RÚV er rætt um að gera miklar breytingar á virðisaukaskattinum, m.a. að almennt hlutfall hans hækki úr 24,5% í 25%. Virðisaukaskattur á almenn matvæli verði óbreyttur 7%, en vsk. á bækur, geisladiska og hótelgistingu tvöfaldist og verði 14%. Vsk. á kex, gosdrykki og safa hækki úr 7% í 25%, að sögn fréttastofu Ríkisútvarpsins.

Þá sagði útvarpið að fallið hafi verið að hluta frá boðuðum orku-, umhverfis- og auðlindasköttum. Enn sé þó gert ráð fyrir 20 aura skatti á hverja kílówattstund. Með því mun skattheimta af stóriðju aukast um 2,7 milljarða. Einnig er hugmynd um kolefnisskatt sem skili ríkinu rúmum fimm milljörðum á næsta ári. Hugmynd er um að hækka tryggingagjald um eitt prósentustig. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert