Færri greinast með inflúensulík einkenni

Reuters

Skv. upplýsingum frá Landlæknisembættinu hafa 8.650 einstaklingar greinst með inflúensulík einkenni frá 29. júní til 8. nóvember sl. Þar af eru 3.942 karlar og 4.618 konur. Í síðustu viku greindust 797 einstaklingar skv. skráningu heilbrigðisþjónustunnar. Það eru töluvert færri en í vikunni á undan.

Fram kemur að tilfellum hafi bæði fækkað á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, að því er fram kemur á vef Landslæknisembættisins.

Enn greinast hlutfallslega fleiri börn í aldurshópnum 0–9 ára með inflúensulík einkenni, færri greinast í öðrum aldurshópum og eftir sextugt fækkar tilfellum verulega.

Þann 8. nóvember sl. höfðu alls 676 einstaklingar greinst með inflúensu A(H1N1)v á Íslandi sem staðfest var á veirufræðideild Landspítala. Þar af voru 332 karlar og 344 konur. Í síðustu viku var sýkingin staðfest hjá 30 einstaklingum, sem eru færri en í vikunni á undan, en þá var sýkingin staðfest hjá 55 einstaklingum. Tilfelli hafa verið staðfest hjá fólki með búsetu í öllum sóttvarnaumdæmum.

Frá 23. september til 9. nóvember 2009 hafa rúmlega 170 einstaklingar verið lagðir inn á sjúkrahús með grun um inflúensu eða staðfesta inflúensu A(H1N1)v 2009.

Langflestir hafa verið lagðir inn á Landspítala eða 133, þar af hafa alls 19 einstaklingar legið á gjörgæsludeild Landspítalans vegna inflúensu. Þann 9. nóvember voru 31 sjúklingur innliggjandi með inflúensu á Landspítala, þar af voru sjö á gjörgæslu.

Alls 20 einstaklingar hafa lagst inn á Sjúkrahúsið á Akureyri vegna inflúensu, þar af hefur einn legið á gjörgæsludeild.

Tíu manns hafa verið lagðir inn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og voru tveir inniliggjandi þar þann 9. nóvember sl.

Stöku innlagnir hafa orðið á öðrum heilbrigðisstofnunum, þar af voru tveir á sjúkrahúsinu í Vestamanneyjum og á Neskaupstað og einn á Blönduósi,  Selfossi og Egilstöðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert