Langt fundarhlé á Alþingi

Fjárlaganefnd Alþingis hefur setið á fundi í kvöld og farið …
Fjárlaganefnd Alþingis hefur setið á fundi í kvöld og farið yfir gögn tengd Icesave-málinu.

Þingfundi hefur ítrekað verið frestað á Alþingi í kvöld, þar sem ljúka átti þriðju og síðustu umræðu um Icesave-frumvarpið. Er þetta vegna þess, að fjárlaganefnd fjallar nú um gögn, sem tengjast málinu en þingmenn stjórnarandstöðunnar sögðu í kvöld að ekki væri hægt að ljúka umræðunni án þess að fjallað yrði um þau.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði áður en þingfundi var frestað í kvöld, að fjárlaganefnd hefði óskað eftir gögnum, sem lögmannsstofan Mishcon de Reya hefði lagt fyrir ríkisstjórnina. Sagði Þorgerður Katrín að þingmenn yrðu að vita hvar þetta mál væri statt áður en þingumræðunni lyki, hvort fjármálaráðherra hefði aflað gagnanna og hvort fjárlaganefnd yrði kölluð saman.

Björn Valur Gíslason, þingmaður VG og varaformaður fjárlaganefndar, sagði að Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hefði fengið í hendur einhver gögn í dag, sem hefðu fundist og væru tengd þessu máli. Kristján léti samflokksmenn sína án efa vita hvort eitthvað væri í þeim, sem tengdist Icesave-málinu.

Þá hefði verið óskað eftir því að hjá Mishcon de Reya yrði leitað eftir gögnum ef þau kynnu að finnast þar. 

Gert er ráð fyrir því, að fundum Alþingis verði frestað á morgun til 26. janúar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert