Andlát: Marteinn H. Friðriksson

Marteinn H. Friðriksson við orgelið.
Marteinn H. Friðriksson við orgelið. Ómar Óskarsson

Marteinn H. Friðriksson dómorganisti lést í gær, sjötugur að aldri. Marteinn (f. Fritz Martin Hunger) fæddist í Meissen í Þýskalandi.

Hann lagði stund á kirkjutónlist, hljómsveitarstjórn og tónsmíðar í borgunum Dresden og Leipzig í heimalandi sínu. Hingað til lands kom Marteinn strax að loknu námi, árið 1964, og starfaði hér upp frá því.

Fyrstu árin var hann skólastjóri Tónlistarskólans í Vestmannaeyjum og organisti í Landakirkju. Hann var organisti við Háteigskirkju í Reykjavík 1970-1978 en eftir það organisti við Dómkirkjuna allt til dánardægurs. Síðast sat hann við hljóðfærið í kirkjunni í útvarpsmessu á aðfangadagskvöld á nýliðnum jólum.

Marteinn starfaði nær fjóra áratugi sem kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík. Auk þess að vera stjórnandi Dómkórsins í Reykjavík stjórnaði hann um árabil söngsveitinni Fílharmóníu, kór Menntaskólans í Reykjavík og sönghópnum Hljómeyki, annaðist útsetningar á tónlist og sinnti trúnaðarstörfum í þágu tónlistarmanna. Eftir hann liggja mörg tónverk og útsetningar, einkum fyrir Dómkórinn og Skólakór Kársness. Fyrri kona Marteins var Hrefna Oddgeirsdóttir. Eftirlifandi eiginkona hans er Þórunn Björnsdóttir, tónmenntakennari og kórstjóri í Kópavogi, og eiga þau fjögur börn: Kolbein, Þóru, Maríu og Martein.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert