Vonar að skýrslan klárist á réttum tíma

Í rannsóknarnefndinni sitja Sigríður Benediktsdóttir, Páll Hreinsson og Tryggvi Gunnarsson.
Í rannsóknarnefndinni sitja Sigríður Benediktsdóttir, Páll Hreinsson og Tryggvi Gunnarsson. Ómar Óskarsson

Páll Hreinsson, formaður rannsóknarnefndar Alþingis, treystir sér ekki til að fullyrða að skýrsla nefndarinnar verði tilbúin 1. febrúar eins og stefnt hefur verið að.

„Við höfum unnið eftir þeirri áætlun að geta skilað skýrslunni 1. febrúar n.k. Þetta er hins vegar stórt og margþætt verkefni og lokafrágangur tímafrekur þannig að á þessari stundu getum við ekki fullyrt nákvæmlega upp á dag eða klukkustund hvenær skýrslan verður birt. Í ráði er að gefa út fréttatilkynningu í síðustu viku janúar varðandi tilhögun skýrsluskila og tímasetningar.“

Í skýrslunni verður að finna tölulegar upplýsingar um umfang þeirrar vinnu sem unnin hefur verið við rannsókn nefndarinnar, ritun skýrslunnar, svo og upplýsingar um það hverjir komu til skýrslutöku og hvenær. Rétt yfir 140 hafa verið teknir í formlega skýrslutöku og sumir oftar en einu sinni. Þá hefur verið rætt við yfir 300 manns á fundum til viðbótar.

Páll sagði að í fréttaumfjöllun netmiðla hefði um störf nefndarinnar hefði ekki komið nógu skýrt fram að rannsóknarnefndin sinnti ekki sérstaklega rannsókn sakamála.

„Það verkefni er í höndum sérstaks saksóknara og eftir atvikum Fjármálaeftirlitsins og annarra yfirvalda. Það er hins vegar tekið fram í lögum um nefndina að ef grunur vaknar við rannsókn nefndarinnar um refsiverða háttsemi eða brot á starfsskyldum skulu nefndin gera hlutaðeigandi yfirvöldum grein fyrir því. Það hvort einstaklingar eru kallaðir í skýrslutöku hjá rannsóknarnefndinni eða ekki hefur því ekki þýðingu um stöðu hans með tilliti til hugsanlegrar refsiábyrgðar. Þar við bætist að í lok 14. gr. laga nr. 142/2008 um rannsóknarnefndina er tekið fram að ekki sé heimilt að nota upplýsingar sem einstaklingur hefur veitt nefndinni sem sönnunargagn í sakamáli sem höfðað er gegn honum. Rannsóknarnefndin hefur því í störfum sínum þurft að gæta þess að rannsókn hennar verði ekki til að takmarka möguleika þar til bærra yfirvalda til að fylgja málum hugsanlega eftir í farvegi sakamála.

Verkefni rannsóknarnefndarinnar er fyrst og fremst að útskýra stóru heildarmyndina um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna. Við það verkefni þurfum við aðeins að taka skýrslur af einstaklingum að svo miklu leyti sem samtímaheimildir s.s. bréf, fundargerðir, minnisblöð, skýrslur, skrár, bókhald, fylgiskjöl og önnur samtímagögn upplýsa ekki málið eða eru ekki misvísandi um atburði. Það hvenær einstaklingar hafa komið á fund okkar hefur ráðist af framvindu rannsóknarinnar, hvort við höfum t.d. nú á lokastigum hennar þurft að fá nánari skýringar á einstökum atriðum og einnig hefur það ráðist af aðstæðum viðkomandi, m.a. ferðum erlendis og heilsufari.“

Páll sagði að nefndin væri núna á endasprettinum við skrif og að sinna ákveðnum þáttum sem lögin kveða á um, svo sem að gefa þeim sem undir það falla kost á að koma að athugasemdum og taka saman upplýsingar um atriði sem nefndin kann að telja rétt að senda til ríkissaksóknara, forstöðumanna og hlutaðeigandi ráðuneyta. Jafnframt væri unnið að prófarkalestri á fyrirliggjandi efni og lögð drög að umbroti. Síðan ætti auðvitað eftir að koma skýrslunni í gegnum prentvélar og bókband.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert