Iðnaðarnefnd ræddi um Verne Holding

Athafnasvæði gagnavers Verne Holdings á Ásbrú í Reykjanesbæ.
Athafnasvæði gagnavers Verne Holdings á Ásbrú í Reykjanesbæ.

Ekki er ljóst hvenær framkvæmdir við fyrsta áfanga gagnavers Verne Holdings á Suðurnesjum hefjast að nýju. Skúli Helgason, formaður iðnaðarnefndar Alþingis, en nefndin fundaði um málið í dag, segir að verkefnið sé komið á góðan rekspöl eftir að nýr fjárfestir kom inn í félagið.

Góðgerðarsjóðurinn Wellcome Trust hefur ákveðið að leggja fram nýtt hlutafé í Verne Holding og þar með verður sjóðurinn stærsti hluthafinn í félaginu. Hlutur eldri hluthafa, General Catalyst og Novator, minnkar við þessa breytingu.

Skúli segist ætla óska eftir upplýsingum um hvernig hlutur hvers og eins sé eftir þessa breytingu. Hann segir ljóst að Wellcome Trust muni drífa þessa framkvæmd áfram. Verkefnið sé nú komið í góðan farveg.

Framkvæmdir við gagnaverið voru stöðvaðar fyrr á þessum mánuði. Skúli segir ekki ljóst hvenær framkvæmdir fari af stað að nýju. Það séu nokkur atriði sem eigi eftir að klára, m.a. fjárfestingasamninginn sem liggur fyrir Alþingi. Skúli segir að þó að fjárfestingasamningurinn feli ekki í sér mikla ívilnun fyrir gagnaverið þá tryggi hann verkefninu ákveðinn stöðugleika inn í framtíðina sem hann segir að skipti máli, sérstaklega vegna þess að hér ríki ekki mikill stöðugleiki í efnahagsmálum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert