Fréttaskýring: Leigumarkaður íbúða allur að lifna

Fjármálastofnanir hafa undanfarið leyst til sín fjölda eigna sem þeim …
Fjármálastofnanir hafa undanfarið leyst til sín fjölda eigna sem þeim er skynsamlegra að leigja út en selja á hrakvirði, að mati leigumiðlara.

Eftirspurnin er mikil,“ segir Halldór Jensson, sölustjóri á leigumiðluninni Rentus. Fyrirtækið er nú með um 30 íbúðir á skrá á höfuðborgarsvæðinu. Í janúar í fyrra voru þær sextíu. Hann segir mikinn fjölda íbúða koma í útleigu þessa dagana, þótt framboðið sé minna en fyrir hrun. Þær íbúðir sem komi í útleigu stoppi heldur ekki jafnlengi. Leiguverð hefur hækkað og er mánaðarleigan á þriggja herbergja íbúð í blokk nú í kringum 120 þúsund krónur. „Þetta er að nálgast verðið sem var fyrir hrun,“ segir hann.

Hilmar Þór Hafsteinsson, löggiltur fasteignasali og leigumiðlari hjá fasteignasölunni Eignamiðlun, staðfestir að leigumarkaður hafi tekið við sér og leiguverð hækkað þótt það hafi ekki náð sömu hæðum og fyrir kreppu.

Ekki á hvaða verði sem er

„Kaupgeta fólks er minni og það er ekki tilbúið að leigja á hvaða verði sem er,“ segir Hilmar Þór. Skortur sé engu að síður á íbúðarhúsnæði og óskirnar um leiguhúsnæði margfalt fleiri en íbúðirnar sem fyrirtækið hafi á skrá. Hilmar Þór fær að meðaltali tvö símtöl á dag frá fólki í leit að leiguíbúð. Eignamiðlun er nú með tvær eignir á skrá, en á sama tíma fyrir ári voru þær tuttugu. Hann segir húseignir líka seljast betur en fyrir ári og því sé minna um að eignir sem ekki seljast fari í leigu.

Lítil breyting hefur hins vegar orðið á eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði. Eignir með atvinnuhúsnæði á skrá eru nú 30-40 sem er svipað hlutfall og í fyrra.

Hjá Félagsbústöðum í Reykjavík er minni eftirspurn eftir leiguíbúðum en var til skamms tíma. Fólk á biðlista eftir félagslegu húsnæði hefur í vaxandi mæli fært sig yfir á almenna markaðinn þar sem eignir bjóðast í ákveðnum tilvikum á lægra verði en áður. Einkum á það við um stærri íbúðir.

Eignir og tekjur ráða

„Almenni markaðurinn hefur komið sterkt inn að undanförnu,“ segir Sigurður K. Friðriksson, framkvæmdastjóri Félagsbústaða. „Framboð á eignum þar er meira og því hefur verð lækkað. Það á sérstaklega við um stærri eignir. Við erum hins vegar mest í minni eignum, 80% okkar íbúða eru þriggja herbergja eða minni. Margir sem voru á biðlista eftir stærri íbúðum hjá okkur hafa fært sig yfir á almenna markaðinn, bæði til að komast strax í húsnæði og eins er leiguverðið á slíkum íbúðum jafnvel hagstæðara en hjá okkur. Í minni eignum erum við hins vegar með lægra verð. Einnig verðum við þess vör að fólk gerir nokkrar kröfur um staðsetningu. Vill gjarnan fá íbúð í þeim borgarhluta þar sem félagslegt bakland þess er.“

Félagsbústaðir eiga alls 2.158 íbúðir, þar af rúmlega 300 þjónustuíbúðir fyrir aldraða. Fyrir liggja alls 650 umsóknir eftir félagslegu leiguhúsnæði. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar úthlutar íbúðunum sem fara aðeins til þeirra sem eru með tekjur og eignir undir ákveðnum mörkum.

Markaður stækkar

„LEIGUMARKAÐURINN mun bara stækka á næstu misserum. Fjöldi fólks hefur misst eignir sínar eða er illa statt af öðrum ástæðum og hefur ekki annan kost en leigja sér íbúð,“ segir Guðlaugur Örn Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Leigulistans. Hann segir eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði hafa aukist mikið að undanförnu. Fyrst eftir hrunið hafi fyrirtækið verið með um 1.100 eignir á skrá en í dag séu þær 300 til 400.

Á höfuðborgarsvæðinu er talsvert um hálfbyggt íbúðarhúsnæði sem fjármálastofnanir hafa leyst til sín. Guðlaugur segir sitt mat að fyrir núverandi eigendur sé skynsamlegast að koma eignunum í nothæft stand og leigja út. Ekki borgi sig að selja þær, því við núverandi aðstæður seljist eignirnar aðeins fyrir hrakvirði á markaði sem sé í raun steindauður sem sakir standi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert