Skorað á kirkjuna að byggja yfir prestinn í Stafholti

Sóknarbörn á nærri því öllum heimilum í Stafholtsprestakalli í Borgarfirði hafa skorað á biskup Íslands að huga sem fyrst að uppbyggingu prestssetursins í Stafholti. Það gera þau til að standa við bakið á séra Elínborgu Sturludóttur sem valin var prestur á síðasta ári og reyna að halda í hana.

Þegar Elínborg kom til starfa í Stafholti á síðasta ári kom í ljós að prestsbústaðurinn var óíbúðarhæfur. Varð að leigja fyrir hana íbúð í Borgarnesi, til bráðabirgða. Unnið var að undirbúningi byggingar húss í Stafholti þegar tilkynning barst um að framkvæmdir myndu frestast vegna efnahagsástandsins.

„Þetta var áfall fyrir Elínborgu og fjölskyldu hennar og heyrðist að hún væri farin að sjá eftir því að hafa sótt um þetta brauð. Þá tóku héraðsbúar sig til enda hefur hún áunnið sér traust og virðingu,“ segir Sigurjón M. Valdimarsson, bóndi á Glitstöðum í Norðurárdal, einn þeirra sem stóðu fyrir undirskriftasöfnuninni.

Skorað er á kirkjuyfirvöld að hraða svo byggingu nýs íbúðarhúss í Stafholti að það verði tilbúið þegar leigutími núverandi bústaðar prestsins rennur út en það er á fyrrihluta næsta árs.

Listar með 178 nöfnum voru afhentir Karli Sigurbjörnssyni biskupi í gær. Sigurjón segir ekki vitað um framhaldið.

Hann getur þess að mikill áhugi hafi verið á þessu málefni. Íbúar á flestum heimilum hafi skrifað undir og einnig börn og nokkrir velunnarar prestakallsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert