Sortuæxlum fjölgar

Tíðni sortuæxla meðal ungra kvenna er einna hæst á Íslandi í heiminum en sortuæxlum hefur fjölgað mjög mikið hjá ungu fólki hérlendis á síðustu 10 - 15 árum. 

„Hættan er ljós“ kallast átaksverkefni sem nú er hrundið af stað sjöunda árið í röð til að beina athygli fermingarbarna að þeirri hættu sem fylgir því að fara í ljósabekki. Foreldrar eru einnig
hvattir til að neita börnum sínum um að stunda slíka bekki, enda auka ljósaböð hættuna á húðkrabbameini til muna.

Bárður Sigurgeirsson húðlæknir  segir að sortuæxlum hafi einmitt fjölgað mjög hjá ungu fólki hérlendis síðustu árin og nú sé svo komið að tíðni sortuæxla meðal ungra kvenna sé einna hæst á Íslandi í heiminum öllum.

Hann segir að þar sem sólar nýtur takmarkað við á Íslandi séu ljósabekkir nærtæk skýring enda sýni kannanir að notkun þeirra sé óvenjulega há í yngstu aldurshópunum.

Bárður segist vita til þess að ungmenni þrýsti á foreldra sína um að fá að fara í ljósabekki í aðdraganda fermingarinnar, en áríðandi sé að foreldrar láti ekki undan þrýstingnum heldur segi nei.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert